40 ár liðin frá viðamestu neyðaraðgerðum Rauða krossins á Íslandi

23. jan. 2013

Fjörutíu ár eru liðin frá eldgosinu í Vestmannaeyjum. Þá hóf Rauði krossinn á Íslandi umfangsmestu neyðaraðgerðir í sögu félagsins. Fyrstu verkefnin snerust um opnun fjöldahjálparstöðva í skólum en síðan tók við starfræksla þjónustumiðstöðvar í Hafnarbúðum í Reykjavík og fjölbreytt endurreisnar- og uppbyggingarstarf sem varði í fjögur ár.

Ákveðið var strax á fyrstu klukkustund frá því að gosið hófst að Rauði krossinn myndi taka að sér velferð fólksins og sjá því fyrir fæði, klæði og húsaskjóli. Móttökustöð var sett upp í Árbæjarskóla þar sem allir Vestmannaeyingar voru skráðir, og þeim ýmist komið fyrir í sex skólum á höfuðborgarsvæðinu eða hjá vinum og ættingjum. Rauði krossinn hélt utan um skráningu allra íbúa á svæðinu og ný heimilisföng þeirra þar til eftir goslok. Yfir 200 sjálfboðaliðar Rauða krossins voru kallaðir til starfa strax fyrsta daginn.

Fjárframlögum sem safnað var á Íslandi og víða um heim var að stórum hluta beint í gegnum Rauða krossinn sem hóf að veita íbúum fjárhagsaðstoð einungis tveimur dögum eftir að gosið hófst. Mestum fjármunum var þó varið í uppbyggingarstarfið sem stóð yfir til ársins 1977.  Stóð Rauði krossinn meðal annars að byggingu Hraunbúða, heimili fyrir aldraða, og barnaheimilisins Rauðagerði. Þá bauð Rauði krossinn í Noregi um 1000 skólabörnum og eldri borgurum í 14 daga dvöl sumarið 1973.

Viðbrögð Rauða krossins í Vestmannaeyjagosinu lögðu í raun grunninn fyrir hlutverk félagsins í almannavörnum eins og þær eru skipulagðar í dag. Þegar neyðarástand ríkir sér Rauði krossinn um skráningu allra íbúa sem fluttir eru af hættusvæðum, setur upp fjöldahjálparstöðvar þar sem fólki er veitt fæði, húsaskjól, og sálrænn stuðningur, og kemur að rekstri þjónustumiðstöðva fyrir íbúa. Að auki kemur Rauði krossinn iðulega að uppbyggingarstarfi og félagslegri aðstoð eftir að neyðarástandi lýkur eftir því sem þörf er á.

Hér má nálgast heimildarmynd um aðgerðir Rauða krossins í kjölfar Vestmannaeyjagossins: 
 

Rauði krossinn tók á móti íbúum Vestmannaeyja í Árbæjarskóla og sá um skráningar.
 
Vestmannaeyjabörn í sumarbúðum í Noregi. Gunnar Þór Jónsson, Elías Atlason og Jón Kristinn Jónsson klifra í trjám.