Rauði krossinn fær styrk til að leiða fjölþjóðlegt verkefni í almannavörnum

21. feb. 2013

Rauði krossinn á Íslandi hefur hlotið 16 milljón króna styrk frá ECHO, neyðarsjóði Evrópusambandsins, til að leiða fjölþjóðlegt almannavarnaverkefni næstu tvö árin. Megintilgangur verkefnisins er að einfalda aðkomu erlends hjálparliðs og hjálpargagna milli landa á neyðartímum og þegar hamfarir verða.

Systurfélög Rauða krossins í Finnlandi, Írlandi, Lettlandi og Póllandi taka þátt í verkefninu auk stjórnvalda í hverju landi. Þá kemur Alþjóða Rauði krossinn að ráðgjöf og samhæfingu. Lögfræðistofan LOGOS styður verkefnið og mun annast lögfræðilegan hluta þess hér á landi.

“Styrkur sem þessi er viðurkenning á því mikilvæga hlutverki sem Rauða krossinn gegnir á sviði neyðarvarna og neyðaraðstoðar,” segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. “Rauða krossinum á Íslandi er sýnt mikið traust með því að velja félagið til að leiða þessa vinnu.”

Megininntak verkefnisins er að kanna hvernig lög og reglugerðir geta tafið eða jafnvel komið í veg fyrir alþjóðlega aðstoð á neyðartímum og koma með tillögu til úrbóta. Hluti af verkefninu verður í formi almannavarnaæfingar þar sem æfð verða alþjóðleg viðbrögð við náttúruhamförum hér á landi.

Alls eru um 750 sjálfboðaliðar Rauða krossins um allt land til taks ef hamfarir eða önnur áföll dynja yfir. Þessir sjálfboðaliðar hafa verið þjálfaðir í að setja upp fjöldahjálparstöðvar og veita sálrænan stuðning og skyndihjálp þegar mikið liggur við.

Rauða kross hreyfingin gegnir lykil hlutverki í neyðarviðbrögðum um allan heim. Alls eru landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans 188 sem öll starfa samkvæmt sameiginlegri stefnu, og koma hverju öðru til aðstoðar á neyðarstundum þegar þörf krefur.