Rauði krossinn hlúir að þýskum skipbrotsmönnum

9. ágú. 2013

Tólf þýskir skipbrotsmenn sem bjargað var af skútunni sem sökk suðvestur af Garðsskaga í nótt voru fluttir í húsnæði Rauða krossins að Efstaleiti um átta leytið í morgun þar sem sjálfboðaliðar og starfsmenn Rauða krossins hlúðu að þeim og veittu áfallahjálp.

Um borð í skútunni voru fimm fullorðnir og sjö börn, það yngsta 11 ára. Viðbragðshópur Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu tók á móti fólkinu, og bjó um það í húsnæði félagsins.  Rauði krossinn mun útvega föt og húsaskjól þar til hópurinn fer úr landi á sunnudag, en allt gistirými í Reykjavík er upppantað.  

Sálfræðingur Rauða krossins segir mikilvægt að hópurinn fái að dvelja saman á einum stað þar til hann fer úr landi. Sjálfboðaliðar Rauða krossins munu skiptast á vöktum til hlúa að fólkinu og veita sálrænan stuðning næstu tvo sólarhringa.

Rauði krossinn hefur unnið náið með þýska sendiráðinu á Íslandi við að aðstoða skipbrotsmennina.

Viðbragðshópur Rauða krossins af höfuðborgarsvæðinu veitti skipbrotsmönnunum áfallahjálp.
 
Boðið upp á morgunmat.
 
Hlúð var að fólkinu í Húsi Rauða krossins að Efstaleiti, því útveguð föt og fundarsalnum breytt í hvíldaraðstöðu þar til búið verður um fólkið í öðru húsnæði Rauða krossins yfir helgina.