Rauði krossinn safnar í Kringlunni, Smáralind og á Skólavörðustíg

4. okt. 2013

Rauði krossinn slær upp flóttamannaskýli á Skólavörðustígnum á morgun, laugardag, þar sem fólki gefst tækifæri til að kynna sér aðstæður sem fjölmargar flóttamannafjölskyldur búa við auk þess tekið er á móti framlögum í Sýrlandssöfnun félagsins.

Þá hafa sjálfboðaliðar komið sér fyrir í Smáralind  og Kringlunni til að vekja athygli á þeirri neyð sem ríkir í Sýrlandi og hjá flóttafólki sem hefst við í nágrannalöndunum. Sjálfboðaliðarnir standa vaktina föstudag og laugardag til að safna fé ásamt því að kynna verkefni Rauða krossins í Sýrlandi og nágrannaríkjunum.

Allir eru hvattir til að hringja eða senda sms í söfnunarsíma Rauða krossins 904 1500, 904 2500, og 904 5500. Þá bætist upphæð sem nemur síðustu 4 tölunum við næsta símreikning. Þeirri fjárhæð er vel varið í neyðarstarf Rauða krossins, enda ótrúlegt hvað fæst fyrir íslensku krónuna til að gera  kraftaverk.

Fyrir 1500 kr. framlag er hægt að kaupa hlýtt teppi fyrir tvö flóttabörn frá Sýrlandi eða veita 15 börnum vatn í heila viku.

Fyrir 2.500 kr. er hægt að sjá sex manna fjölskyldu fyrir nauðsynlegustu hreinlætisvörum í heilan mánuð

Fyrir 5.500 kr. er hægt að fæða sex manna sýrlenska flóttafjölskyldu í einn mánuð.

Og fyrir 10.000 kr. er hægt að veita læknisaðstoð 10.000 manna byggðarlagi í einn dag. Og fyrir 1,5 milljónir er hægt að veita 100 einstaklingum lyf og læknisaðstoð í 10 daga.

Rauði krossinn á Íslandi hefur síðan í ágúst útvegað fjármagn til reksturs færanlegra læknastöðva í Líbanon sem fara á milli þorpa og flóttamannabúða og veita brýna læknisaðstoð. Auk þess styður íslenski Rauði krossinn neyðaraðstoð Alþjóða Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Sýrlandi þar sem átök ógna lífi óbreyttra borgara og saklausra barna.