Hamla lög og reglugerðir alþjóðlegu hjálparstarfi á Íslandi?

17. feb. 2014

Geta íslensk lög og reglugerðir tafið eða jafnvel komið í veg fyrir að alþjóðleg aðstoð berist hingað til lands á neyðartímum? Eru Íslendingar í stakk búnir til að taka á móti alþjóðlegu hjálparliði í kjölfar stórra hamfara sem innlendir viðbragðsaðilar ráða ekki við?
 
Rauði krossinn á Íslandi leitast við að svara þessum og fleiri spurningum á málstofu sem haldin verður í húsi Rauða krossins að Efstaleiti 9, miðvikudaginn 19. febrúar kl. 9-12.  Kynntar verða niðurstöður skýrslu sem lögmannstofan Logos hefur unnið fyrir Rauða krossinn þar sem greindir verða þættir sem takmarka eða hindra aðkomu alþjóðlegs hjálparliðs til Íslands á neyðartímum. Logos styður verkefnið með vinnu sinni.
 
Málstofan er þáttur í fjölþjóðlegu almannavarnaverkefni sem Rauði krossinn á Íslandi var fenginn til að leiða, og hlaut til þess styrk frá ECHO, neyðarsjóði Evrópusambandsins. Systurfélög Rauða krossins í Finnlandi, Írlandi, Lettlandi og Póllandi taka þátt í verkefninu auk stjórnvalda í hverju landi. Þá kemur Alþjóða Rauði krossinn að ráðgjöf og samhæfingu.
 
Megintilgangur verkefnisins er að einfalda aðkomu erlends hjálparliðs og hjálpargagna milli landa á neyðartímum og þegar hamfarir verða. Hluti af verkefninu verður í formi almannavarnaæfingar þar sem æfð verða alþjóðleg viðbrögð við náttúruhamförum hér á landi. 
 
Alls eru um 750 sjálfboðaliðar Rauða krossins um allt land til taks ef hamfarir eða önnur áföll dynja yfir. Þessir sjálfboðaliðar hafa verið þjálfaðir í að setja upp fjöldahjálparstöðvar og veita áfallahjálp og skyndihjálp þegar mikið liggur við. 
 
Rauða kross hreyfingin gegnir lykil hlutverki í neyðarviðbrögðum um allan heim. Alls eru landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans 189 sem öll starfa samkvæmt sameiginlegri stefnu, og koma hverju öðru til aðstoðar á neyðarstundum þegar þörf krefur.