Leiðtogar á neyðartímum

5. mar. 2014

Þegar náttúruhamfarir verða eða áföll dynja yfir þurfa leiðtogar að bregðast skjótt við og taka ákvarðanir sem oft eru afdrifaríkar og varða líf og heilsu fjölda fólks.  Miklu máli skiptir að þeir sem stjórna aðgerðum á neyðartímum geti unnið undir miklu álagi og kunni að verja sig fyrir streitu og áreiti.

Gísli Ólafsson, yfirmaður neyðarmála hjá NetHope, heldur fyrirlestur um mikilvægi leiðtogastjóprnunar á neyðartímum á morgun, 6. mars, kl. 8.30 í húsi Rauða krossins að Efstaleiti 9

NetHope eru regnhlífarsamtök 41 stærstu hjálparsamtaka heims, og á Rauði krossinn aðild að þeim.  Gísli sér um samhæfingu á sviði upplýsingatækni og samskipta á neyðartímum.

Í fyrirlestrinum mun Gísli fjalla um mikilvægi þess að undirbúa sig andlega og líkamlega, hvernig byggja má upp teymi sem þolir álag, ákvörðunartöku undir álagi, meðhöndlun streitu og áfallahjálpar og hvað leiðtogar þurfa að hafa í huga þegar allt virðist vonlaust í kringum þá. Gísli notar dæmi úr starfi sínu á hamfarasvæðum og úr íslenskum veruleika, til að mynda úr efnahagshruninu.

Gísli hefur verið sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum síðan 1990, björgunarsveitarmaður innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar síðan 1994, á UNDAC (United Nation Disaster Assessment and Coordination) útkallslista hjá SÞ frá 2007 og á Veraldarvaktinni frá 2008. Gísli var stjórnandi íslensku Alþjóðabjörgunarsveitarinnar í kjölfar jarðskjálftans mikla á Haítí 2010.

Hægt er að horfa á fyrirlesturinn (því miður eru myndgæðin slæm)