Rauði krossinn aðstoðar við Vitatorg

26. ágú. 2014

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu óskaði eftir aðstoð Rauða krossins á Íslandi vegna bruna sem tilkynnt var um í Bjarnaborg, elsta fjölbýlishúsi Reykjavíkur, staðsett á horni Vitastígs og Hverfisgötu, laust eftir klukkan 7 í morgun. Rauði krossinn fékk kallið kl. 7.31 og voru fulltrúar RKÍ mættir á svæðið innan við 10 mínútum síðar.

Fulltrúar RKÍ aðstoðuðu slökkviliðsmenn við rýmingu hússins en í fyrstu var ekki vitað um upptök brunans. Hann reyndist einangraður í ruslageymslu og tókst fljótlega að slökkva hann. Strætisvagn var fenginn á staðinn þar sem íbúum var veittur sálrænn stuðningur á meðan aðgerðum stóð. Þegar mest var voru 12 íbúar sem þáðu aðstoð RKÍ.

Aðgerðum Slökkviliðsins, sem og RKÍ, lauk kl. 9.20. Engum varð meint af vegna brunans og aðeins þurfti að reykræsta eina íbúð, þá sem er staðsett við hlið ruslageymslunnar.