Rauði krossinn veitir sálrænan stuðning í Hveragerði

Ingibjörgu Eggertsdóttur

4. jan. 2006

Hús Hjálparsveitarinnar var verulega skemmt og allur útbúnaður ónýtur eftir brunann.
Mynd: Sunnlenska/Guðmundur Karl.

Hveragerðisdeild Rauða kross Íslands brást skjótt við þegar sprengingin varð í flugeldasölunni í Hveragerði á gamlársdag. Grunnskólinn var opnaður og tóku sjálfboðaliðar deildarinnar á móti fólki en þeir sem höfðu verið við afgreiðslu flugeldanna og viðskiptavinir voru skelfingu lostnir eftir þennan ónotalega atburð.

Margt var af ungu fólki í húsinu þegar sprengingin varð og því var þetta einnig erfitt fyrir foreldra þeirra en það var vegna snarræðis að ekki hlaust slys af.

Í grunnskólanum voru auk sjálfboðaliða Rauða krossins, aðilar frá Hjálparsveit Hveragerðis og slökkviliðinu. Allir þessir aðilar eru vanir að fást við áföll af þessu tagi og héldu þau utan um hópinn fram eftir degi.

Bæklingnum ?Aðstoð við börn eftir áfall,? sem Rauði krossinn hefur gefið út var dreift til foreldra strax á gamlársdag.

Á mánudeginum 2. janúar var boðið upp á áfallahjálp þar sem Jóhann Thoroddsen verkefnisstjóri í sálrænum stuðningi hjá Rauða krossi Íslands og sr. Jón Guðmundsson spjölluðu við hópinn. Húsfyllir var á fundinum.

Margir þeirra sem mættu á fundinn höfðu verið að vinna í húsinu allan daginn og meira og minna síðan sprengingin varð og voru því aðframkomin af þreytu. Sjálfboðaliðar Hveragerðisdeildarinnar gáfu þeim að borða og hresstust þau við það.

Að ósk Hjálparsveitarinnar verður sálrænum stuðningi fylgt eftir næstu daga eða á meðan þörf þykir.