Aukin geta samfélagsins til að takast á við afleiðingar hamfara er lykillinn að þróun samfélagsins

3. des. 2004

Í september urðu gífurleg flóð í Bangladesh sem sökktu tveimur þriðju af landinu undir vatn. Hamfarir þessar hröktu um þrjátíu miljónir manna frá heimilum sínum. Nú þegar vatn er tekið að sjatna og fólkið snýr aftur heim vaknar enn á ný spurningin um það hvernig draga megi úr afleiðingum náttúruhamfara.

Bangladesh er hins vegar aðeins eitt af mörgum dæmum um skelfilegar afleiðingar hamfara víðsvegar um heim og á meðan fréttir af flóðum fylla forsíður blaða í Asíu ríkja langvarandi þurrkar í stórum hluta Afríku sunnan Sahara. Auk þurrka herjar hungur og alnæmi á íbúa Afríku og Alþjóða matvælastofnunin býst við því að fæða þurfi miljónir manna á þessu svæði á komandi vetri, þar af um 1,8 miljónir manna í Keníu einni.

Á síðast liðnu ári urðu náttúruhamfarir í heiminum um það bil 68.000 manns að bana. Jafnframt höfðu hamfarirnar skaðlegar afleiðingar fyrir líf um 250 miljóna manna. Með afleiðingum er átt við hvers konar skaða, til dæmis missi útlima, heimilis, eigna eða lífsviðurværis. Vekja þarf sérstaka athygli á því að náttúruhamfarir geta einnig búið fólki langvarandi og óyfirstíganlega fátækt með því að koma í veg fyrir þróun samfélagsins.

Í skýrslu þessa árs um hamfarir í heiminum vekur Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans sérstaka athygli á tengslum náttúruhamfara og vanþróunar. 51 maður deyr að meðaltali í hverjum náttúruhamförum í þróuðum löndum, en hins vegar láta 589 manns lífið að meðaltali í hvert skipti sem hamfarir eiga sér stað í þróunarlöndum.

Miklar vonir eru bundnar við þróunarstarf alþjóðasamfélagsins og sett hafa verið metnaðarfull þróunarmarkmið sem gera ráð fyrir því að fyrir árið 2015 megi draga úr fátækt í heiminum um helming. Aðrar spár benda hins vegar til þess að það markmið náist ekki í löndum Afríku sunnan Sahara fyrr en um miðja næstu öld. Um leið er gert ráð fyrir því að Mið-Austurlönd, Norður-Afríka, Suður-Ameríka, og lönd í Karíbahafi muni einnig eiga í miklum erfiðleikum með að draga úr fátækt. Náttúruhamfarir og sá skaði sem þær valda gera þróunarmarkmið þessi enn fjarlægari.

Til að ýta megi undir hraðari þróun í fátækum löndum heims er mjög mikilvægt að draga úr skaðlegum áhrifum hamfara, en því miður hafa þau aukist á undanförnum áratugum. Frá því um 1970 hefur árlegum náttúruhamförum fjölgað úr 110 á ári í meira en 300 á ári eftir 1994. Meira en 250 miljónir manna þjást árlega af völdum náttúruhamfara, - þrefalt fleiri en á áttunda áratugnum.

Tölulegar upplýsingar um þessa þróun eru þó ekki einungis neikvæðar. Tvær miljónir manna létust af völdum náttúruhamfara á áttunda áratugnum en hins vegar urðu 580,000 dauðsföll vegna hamfara á síðastliðnum áratug. Færri deyja því af völdum hamfara en áður um leið og heildarfjöldi fórnarlamba hefur aukist.

Ástæða þessarar þróunar kemur að nokkru leyti fram í skýrslu Alþjóðasambandsins um hamfarir í heiminum árið 2004 og er talið að hana megi að hluta rekja til betri alþjóðlegra forvarna og viðbragða við hamförum. Notkun gervihnattarstýrðra viðvörunarkerfa og bygging stormskýla við Bengalflóa hafa til dæmis dregið gífurlega úr dauðsföllum af völdum fellibylja. Þó er þar ekki að finna nema hluta ástæðunnar og í skýrslunni er lögð áhersla á að aukin þekking og viðbragðsgeta þess fólks sem er í mestri hættu hafi dregið mun meira úr dauðsföllum en oft er talið.

Í kjölfar jarðskjálfta sem eyðilagði 85% af írönsku borginni Bam í desember á síðasta ári fóru fram mjög umsvifamiklar alþjóðlegar björgunaraðgerðir. Innan tveggja daga voru 34 björgunarsveitir frá 27 löndum komnar á staðinn. Sveitir þessar voru búnar fullkomnum skynjurum og leitarhundum og björguðu 22 mannslífum. Mun meira máli skiptu hins vegar viðbrögð íbúanna sjálfra. Íranski Rauði hálfmáninn kom björgunarsveitum sínum á staðinn á nokkrum mínútum, jafnvel þó að fjórir björgunarsveitarmenn hefðu farist í skjálftanum og höfuðstöðvar Rauða hálfmánans hefðu hrunið til grunna. Sveitir heimamanna björguðu 157 mannslífum með aðeins 10 hundum.

Þegar hamfarir ber að höndum skyndilega og fyrirvaralaust, líkt og þegar jarðskjálfti á sér stað, eru það fyrstu klukkustundirnar sem skipta sköpum. Langflestum mannslífum er bjargað skömmu eftir að hamfarirnar eiga sér stað. Björgunarsveitir heimamanna eru ekki aðeins betur staðsettar til að geta brugðist hratt við, heldur eru þær einnig mun ódýrari. Sex daga útkall björgunarsveitar frá Evrópu til Íran (sex manna með fimm hunda) kostar frá um það bil fjórum miljónum íslenskra króna. Sama upphæð nægir til að greiða tveggja ára þjálfun fyrir þrjá íranska hunda og þjálfara þeirra.

Staðbundin þekking og hugrekki eru eins mikilvæg og nokkur hátæknibúnaður. Eftir að Mahmud Ranjbar sjálfboðaliði Rauða hálfmánans varð var við smáskjálfta sem hann grunaði að væru undanfari stærri skjálfta, hóf hann að hringja um bæinn til að vara fólk við og segja því að fara út úr húsum sínum. Honum tókst að ná í um 25 fjölskyldur og var talinn hafa bjargað um 100 manns áður en stóri skjálftinn reið yfir klukkan 5:28 og drap hann þar sem hann sat við símann.

Sögur af þessu tagi sýna að með því að styrkja forvarnir og viðbúnað samfélaga þar sem hætta er á hamförum má bjarga mun fleiri mannslífum heldur en með því að senda dýrar alþjóðlegar björgunarsveitir eftir að hamfarirnar hafa þegar átt sér stað. Björgun mannslífa er þó aðeins hluti sögunnar. Til að tryggja það að hamfarir hindri ekki þróun samfélagsins þurfum við að hindra það að stór hluti almennings verði fyrir skaða af völdum þeirra. Flest bendir til þess að besta leiðin til árangurs sé að bæta getu fólks í samfélaginu sjálfu til að bregðast við hamförum.

Samkvæmt bændasamtökum í Andhra Pradesh héraði á Indlandi sviptu 4-5000 bændur á svæðinu sig lífi á undanförnum sex árum. Landbúnaðarráðgjafar og sérfræðingar frá fjarlægum borgum höfðu áður ráðlagt bændum í héraðinu að snúa sér að ræktun tegunda sem gæfu þeim meiri tekjur og fengu þá til að skipta í hveiti, baðmull og hrísgrjón. Breytingar þessar ollu hins vegar miklum erfileikum þegar þurrkar og skordýraplágur lögðust á akra þeirra. Eftir að hafa tekið lán á háum vöxtum til að fjármagna kaup á fræjum og áburði sátu margir bændur uppi með miklar skuldir og gátu ekki lengur séð fyrir fjölskyldum sínum. Mikill fjöldi fólks kiknaði undan fátækt og örvæntingu.

Ein af hjálparstofnunum héraðsins uppgötvaði hins vegar að konur af lágum stéttum bjuggu yfir mikilli þekkingu á hefðbundnum korntegundum á borð við sorghum sem þola þurrka og ágang skordýra mun betur. Með aðstoð þessarar hjálparstofnunar selja konurnar þessar hefðbundnu korntegundir til bænda um allt héraðið í dag. Hefðbundin ræktunarbúskapur og áveitutækni hafa verið endurreist og í febrúar ár hvert er haldin hátíð í 65 þorpum til að halda upp á þann góða árangur sem fengist hefur með því að hefja aftur ræktun hefðbundinna korntegunda og matjurta.

 
Draga má mikilvægan lærdóm af þróuninni í Andhra Pradesh. Oft geta áhrif yfirvalda og óviðeigandi ráðleggingar sérfræðinga grafið undan getu samfélagsins til að bjarga sér þegar náttúruhamfarir eiga sér stað. Á hinn bóginn hefur almenningur á staðnum oft þá þekkingu og reynslu sem þarf til að bregðast við á réttan hátt ef nauðsyn krefur. Bæði ríkisstjórnir og hjálparstofnanir þurfa að rækta með sér skilning á þeirri þekkingu og getu sem  íbúar á hamfarasvæðum hafa og aðstoða við að styrkja og efla þá mikilvægu auðlind. Allt of oft halda sérfræðingar um hamfarir að þeir viti allt best og því bregst stundum að athugað sé hvaða hefðbundnir möguleikar og lausnir standa til boða meðal almennings í samfélaginu.

Bæði þegar um er að ræða skyndilegar hamfarir og hamfarir sem eiga sér langan undanfara eru það einmitt fórnarlömb hamfaranna sjálf sem finna bestu lausnirnar á vanda sínum. Oft er fólk mun hæfara til að bregðast við hamförum en við höldum. Til að geta dregið úr þeim mikla fjölda fólks sem lætur lífið eða verður fyrir öðrum skaða af völdum hamfara, þá verður alþjóðasamfélagið að líta ekki einungis til þess hvaða aðstoð  fórnarlömb hamfara þurfa, heldur einnig hvað þau geta gert sjálf til að búa sig undir og bregðast við erfiðleikunum.

Á vefsíðu Alþjóðasambands Rauða krossins er að finna myndir úr skýrslunni