Neyðarvarnir endurskoðaðar á höfuðborgarsvæði

Þóri Guðmundsson

14. okt. 2004

Á svæðisfundi Rauða kross deildanna á höfuðborgarsvæðinu sem haldinn var í gær lýstu deildirnar yfir vilja til að koma á sameiginlegum viðbúnaði vegna neyðarvarna. Formaður Kópavogsdeildar hefur haft forgöngu um að deildirnar hefji undirbúning að samvinnu í þessum efnum og var samþykkt að stofna starfshóp til að gera tillögu um samstarf deildanna í neyðarvörnum.

Á fundinum lét Guðrún Mjöll Sigurðardóttir, Kópavogsdeild, af störfum sem formaður svæðisráðs en í stað hennar kemur Sigrún Jóhannsdóttir, formaður Álftanesdeildar. Fjölmörg samtarfsverkefni deildanna voru rædd á fundinum í gær, svo sem Fjölsmiðjan, fataflokkun, námskeið og fleira.

Á fundinum lýsti Reynir Guðsteinsson fulltrúi Rauða kross deildanna í stjórn Fjölsmiðjunnar starfi hennar undanfarið og nefndi að deildir á höfuðborgarsvæðinu hefðu á þeim þremur árum, sem Fjölsmiðjan hefur starfað, lagt fram tólf milljónir króna til starfsemi hennar. Nú væru 42 nemar í Fjölsmiðjunni.

Reynir sagði að af þeim sem hefðu útskrifast í fyrra væru 38 prósent í vinnu og 26 prósent í skóla, sem lýsir vel góðum árangri af starfseminni. Hins vegar vantaði verulega aukið fé frá hinu opinbera til rekstursins. 

Samþykktin um neyðarvarnir var svohljóðandi:
Svæðisfundur deilda RKÍ á höfuðborgarsvæði samþykkir að skipa vinnuhóp til þess að skoða samstarf deildanna í neyðarvörnum.  Hver deild skal skipa einn fulltrúa í vinnuhópinn og tilkynna um hann til svæðisfulltrúa.  Hópurinn kýs sér formann á sínum fyrsta fundi.  Vinnuhópurinn skal hefja störf eigi síðar en 1. nóvember n.k. og skila stjórnum deildanna niðurstöðu sinni og tillögum eigi síðar en 1. febrúar 2005.   Svæðisfulltrúi situr fundi hópsins, er ritari hans og boðar til funda.

Bjóða skal þeim sem starfa að neyðarvörnum á vegum deildanna til samráðsfundar um málið hið fyrsta.  Leita skal eftir samráði við aðra eftir því sem þörf krefur að mati hópsins.

Verkefni vinnuhópsins er að:
Meta og gera tillögu um hvernig deildirnar geta sameiginlega á sem skilvirkastan hátt brugðist með félagslegri fjöldahjálp og neyðaraðstoð við hvers kyns áföllum, stórum sem smáum.

Á fundinum var einnig samþykkt svohljóðandi tillaga um Fjölsmiðjuna:
Svæðisfundur deilda RKÍ á höfuðborgarsvæðinu haldinn 13. október 2004 samþykkir að beina þeim tilmælum til deilda innan svæðisins að þær skoði möguleika á áframhaldandi fjárhagsstuðningi við starf Fjölsmiðjunnar næstu 2 árin.