Flugslysaundirbúningur í hámarki

Herdísi Sigurjónsdóttur

22. sep. 2004

Fulltrúar Rauða kross Íslands á undirbúningsfundi vegna flugslysaæfingarinnar.
Næstkomandi laugardag 25. september verður æft eftir nýrri flugslysaáætlun fyrir Reykjavíkurflugvöll.

Rauða kross deildir á höfuðborgarsvæðinu hafa staðið í undirbúningi undanfarnar vikur og kemur stór hópur sjálfboðaliða til með að æfa viðbrögð sín á laugardaginn.

Fjöldahjálparstjórn sem skipuð verður fulltrúum úr neyðarnefnd Reykjavíkurdeildar Rauða krossins stýrir aðgerð fjöldahjálparinnar og verður hún staðsett í húsnæði deildarinnar að Laugavegi 120. Á sama stað verður líka æft í fyrsta sinn símsvörun Hjálparsímans 1717 vegna atburðarins. Sérþjálfaðir sjálfboðaliðar símans koma til með að svara aðstandendum og vinum og taka niður upplýsingar um viðkomandi og sjá til þess að þeir verði látnir vita um afdrif sinna nánustu um leið og upplýsingar um fórnarlömb liggja fyrir.

Fjöldahjálparstöð verður staðsett í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Þangað verða lítið slasaðir fluttir og sameinaðir sínum aðstandendum. Söfnunarsvæði aðstandenda verður í safnarðarheimili Grensáskirkju. Aðstandendum er beint þangað og þeim bent á að þar geti þeir beðið fregna af sínum nánustu.

Deildirnar eiga jafnframt fulltrúa í aðgerðastjórn almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins sem staðsett verður í Skógarhlíð og kemur til með að stýra heildaraðgerðinni.

Hægt er að nálgast ýmislegt er tengist æfingunni á: /redcross/starfid_heima/neydarvarnir/flugslysaaefingar/