Auka verður áherslu á neyðarvarnir

19. jún. 2002

Markmið Sameinuðu þjóðanna um að lyfta helmingi þeirra sem nú eru fátækir yfir fátæktarmörk fyrir árið 2015 munu ekki nást nema hægt verði að milda áhrif náttúruhamfara í þróunarríkjum. Fyrirkomulag neyðarvarna á Íslandi gæti verið fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir. Þetta kemur fram í ársskýrslu Alþjóðasambands Rauða kross félaga sem gefin er út í dag.

Í skýrslunni eru iðnríki hvött til þess að veita auknu fjármagni í neyðarvarnir fátækari ríkja í því skyni að koma í veg fyrir eða milda áhrif síendurtekinna hamfara sem halda mörgum þjóðum í viðjum örbirgðar.

Samanburður á áttunda og tíunda áratug síðustu aldar leiðir í ljós að mun fleiri verða nú fyrir náttúruhamförum af ýmsu tagi og þær valda meiri efnahagslegum skaða. En talsvert færri láta lífið í hamförum nú á dögum en á áttunda áratugnum.

Náttúruhamfarir röskuðu lífi um 170 milljóna manna á árinu 2001, að því er kemur fram í skýrslunni.

Gagnrýnt er hversu mikill hluti fjár sem veitt er til hjálparstarfs fer til þess að bregðast við hamförum miðað við það litla fé sem veitt er til að koma í veg fyrir hamfarir eða milda áhrif þeirra.

Bent er á að neyðarvarnir hafi oftsinnis sannað gildi sitt og bjargað lífum þúsunda manna. Mikilvægt sé að þjálfa fólk á staðnum til að það geti sjálft brugðist við náttúruhamförum og byggja upp viðbúnað heima fyrir.

Í skýrslunni er bent á fyrirkomulag neyðarvarna á Íslandi sem fyrirmynd annarra þjóða. Einkum er lofað samstarf hins opinbera við sjálfboðasamtök eins og Rauða krossinn og Slysavarnafélagið Landsbjörgu.

Hægt er að lesa skýrsluna í Adobe Acrobat, kafla fyrir kafla, hér á vefnum.

wdr index
wdr inngangur
wdr 1
wdr 2
wdr 3
wdr 4
wdr 5
wdr 6
wdr 7
wdr 8
wdr 9
wdr 10
wdr 11