Viðbrögð við flugslysi æfð á Ísafjarðarflugvelli

Herdís Sigurjónsdóttir

12. maí 2004

 
Árni Traustason fjöldahjálparstjóri og Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúi í stjórnstöð.
Tuttugu sjálfboðaliðar Rauða kross deilda Ísafjarðar, Bolungarvíkur og Súðavíkur tóku þátt í vettvangsæfingu á vegum Flugmálastjórnar sem haldin var á Ísafirði 8. maí sl. þar sem tvær flugvélar áttu að farast með um 60 manns innanborðs. Allir sem hafa verkskyldum að gegna við flugslys á Ísafirði tóku þátt í æfingunni, alls um tvö hundruð manns, undir styrkri stjórn Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur sýslumanns.

Æft var eftir nýrri flugslysaáætlun fyrir Ísafjarðarflugvöll og viðbrögð og aðgerðir samkvæmt henni. Áætlunin byggir á samræmdu starfsskipulagi fyrir alla neyðaraðila á Íslandi, s.k. SÁBF-kerfi, sem stendur fyrir Stjórnun, Áætlanir, Bjargir, Framkvæmdir. 

Æfðar voru björgunaraðgerðir, björgun á vettvangi þar sem um var að ræða mikið slasaða, minna slasaða, óslasaða og látna og samhæfing aðgerða sem og aðhlynning við aðstandendur og samskipti við fjölmiðla. Á æfingunni reyndi verulega á samhæfingu samstarfsaðila vegna flutnings á slösuðum frá Ísafirði, sem og á boðunarkerfi störf fólks á vettvangi, stjórnun, fjarskipti, rannsóknir og fleira.

Auk Rauða kross deildanna tóku þátt í æfingunni Flugmálastjórn, Almannavarnanefnd Ísafjarðarbæjar, björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Landhelgisgæslan, lögregla, slökkvilið, sjúkraflutningamenn og sjúkrahúsið á Ísafirði. Utan héraðs tók Tilkynningarskylda íslenskra skipa þátt í æfingunni og samhæfingarstöð almannavarna í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð. Meðal verkefna samhæfingarstöðvar var flutningur sjúklinga úr héraði, m.a. uppsetning og framkvæmd loftbrúar. Auk loftbrúarinnar var líkt eftir flutningum slasaðra frá flugvelli að sjúkrahúsi. Enn fremur önnuðust fulltrúar Rauða krossins úrvinnslu á skráningu áverka og afdrifum þeirra sem lentu í slysinu. Auk starfsmanna almannavarnadeildar og fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra störfuðu fulltrúar frá Flugmálastjórn, Landlækni, landsstjórn björgunarsveita, Neyðarlínunni, Rauða krossi Íslands og Vegagerðinni í stöðinni.  

Æfingin tókst í alla staði vel og skilaði dýrmætri reynslu til allra sem tóku þátt í henni.