Flugslysaæfing á Vopnafirði og Þórshöfn

Elmu Guðmundsdóttur

3. jún. 2003

Undirbúningur fyrir áföll og slys eru stór hluti af starfi Rauða krossins um allan heim. Grundvöllur neyðarviðbragða er góður undirbúningur og hugmyndafræði Rauða krossins gengur út á að þeir sem eru næstir slysstað séu fyrstir að bregðast við. Þetta er meðal annars hugmyndin á bak við flugslysaæfingar sem haldnar voru á Vopnafirði og Þórshöfn nýlega.

Sviðsett var brotlending flugvélar í lendingu með 15 manns innanborðs. Unnið hefur verið að undirbúningi æfinganna undanfarna tvo mánuði en þátt í þeim tóku björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á stöðunum, deildir Rauða kross Íslands, heilsugæslan, rannsóknarnefnd flugslysa, almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, slökkvilið staðanna, lögreglan og fleiri.

Íbúar staðanna tóku þátt í verkefninu með því meðal annars að leika slasaða og aðstandendur og tókst það einstaklega vel. Sérstaklega eiga unglingarnir sem tóku þátt í bæði að leika slasaða og aðstandendur mikið hrós skilið. Dagana fyrir æfingarnar var boðið upp á ýmsa fræðslu og kynntir vinnuhópar sem unnu að undirbúningi einstakra verkþátta og var umfang þeirra var mismikið.

Útfærsla flugslysanna var þannig að á vettvangi blasti við gróft ástand þeirra sem eiga að hafa lent í slysinu. Langt er síðan haldnar hafa verið hópslysaæfingar á Vopnafirði og Þórshöfn og var því lagt mikið upp úr því að undirbúa og samhæfa vinnu allra viðbragðsaðila sem líklegt er að verði kallaðir til starfa ef hópslys verður. Það er mál þeirra sem að æfingunni á Vopnafirði og Þórshöfn komu að vel hafi til tekist og íbúar staðanna hafa örugglega gert sér grein fyrir mikilvægi þess að góð neyðarvarnaráætlun sé til staðar.

Þeir aðilar sem komu beint að æfingunum af hálfu Rauða kross Íslands voru sex starfsmenn og fjölmargir félagar í Rauða kross deildum staðanna. Unga fólkið sem tók þátt í æfingunum stóð sig einstaklega vel, sem og allir aðrir á Vopnafirði og Þórshöfn.