Viðbragðsstaða vega nauðlendingar flugvélar

25. okt. 2006

Útkall barst frá Neyðarlínunni klukkan 15.18 í dag vegna nauðlendingar flugvélar á Keflavíkurflugvelli. Vélin sem er frá bandaríska flugfélaginu Continental var á leið frá London Gatwick til Bandaríkjanna. Gangtruflanir voru í hreyfli og búið að slökkva á honum. Um borð voru 172 með áhöfn.

Fulltrúi Rauða krossins mætti í Samhæfingastöð Almannavarna og sjö fjöldahjálparstjórar frá Suðurnesjadeild mættu í flugstöð Leifs Eiríkssonar til að veita farþegum sálrænan stuðning. Karl Georg Magnúson formaður neyðarnefndar var í aðgerðarstjórn. Fjöldahjálparstjórar frá deildum á höfuðborgarsvæði voru í viðbragðsstöðu og einnig neyðarnefnd landsskrifstofu Rauða krossins.

Vélin lenti heilu og höldnu kl. 16.10. Flugstjóri flugvélarinnar ákvað að farþegar færu ekki frá borði og fór vélin áleiðis til Bandaríkjanna upp úr kl. 18.00. 

Bandaríska sendiráðið var upplýst um atburðarrás allan tímann.