Rauði krossinn aðstoðar vegna húsbruna

8. nóv. 2006

Boð bárust frá Neyðarlínunni rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi vegna bruna í íbúð í fjölbýlishúsi við Ferjubakka. Óskað var eftir aðstoð Rauða krossins við að sinna íbúum hússins sem höfðu fengið aðsetur í strætisvagni við húsið. Tvennt var í íbúðinni sem brann og eru þau stórslösuð.

Fjórir sjálfboðaliðar úr viðbragðshópi neyðarnefndar höfuðborgarsvæðis fóru strax á staðinn og einn úr áfallahjálparteymi Rauða krossins. Sérútbúin brunakerra neyðarnefndarinnar var einnig sótt.

Fljótlega gekk að reykræsta og flestir íbúar komust í sínar íbúðir. Einhverjir gistu þó hjá aðstandendum.

Fjöldahjálparstjórar Rauða krossins fóru í allar íbúðir og buðu frekari aðstoð.