Vel heppnuð flugslysaæfing á Sauðárkróki

2. maí 2007

Umfangsmikil flugslysaæfing fór fram á Sauðárkróki á laugardaginn. Skagafjarðardeild Rauða krossins og áhöfn félagsins í Samhæfingarstöðinni tóku þátt fyrir hönd Rauða krossins.
 
Flugvél með 28 farþega auk tveggja í áhöfn hlekktist á við lendingu á flugvellinum og eldur braust út. Unnið var eftir drögum að flugslysaáætlun Sauðárkróksflugvallar.

Sjálfboðaliðar Skagafjarðardeildar voru 19 talsins þennan dag og mönnuðu þeir nokkra pósta svo sem stjórnstöð fjöldahjálpar, söfnunarsvæði aðstandenda og fjöldahjálparstöð. Skyndihjálparhópur Rauða krossins starfaði á söfnunarsvæði slasaðra á flugvellinum og sjálfboðaliðar aðstoðuðu við skráningu og gæslu á spítalanum. Þá átti deildin tvo fulltrúa í aðgerðastjórn almannavarna.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins ræða við aðstandendur.

Jóna Hjaltadóttir, stjórnandi söfnunarsvæðis aðstandenda leggur á ráðin með félögum sínum í samráðshópi áfallahjálpar, sr. Sigríði Gunnarsdóttur og Guðrúnu Jóhannsdóttur.

Sjálfboðaliðarnir sem léku sjúklinga komu meðal annars úr ungmennastarfi Skagafjarðardeildar og gambíska Rauða krossinum. Þeir gambísku voru Ebou Sarr og Mby Bittaye. Þeir er hér á landi í tengslum við vinadeildasamstarf Reykjavíkurdeildarinnar.

Samstarf Rauða krossins við aðra viðbragðsaðila var til fyrirmyndar og má þar sérstaklega nefna áfallateymi Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki. Æfð voru samskipti við sendiráð þar sem nokkrir farþegar voru erlendir ríkisborgarar.
 
Æfingin þótti takast óvenjuvel og fátt kom upp á sem þarf að laga í framhaldinu. Allt viðbragðslið í Skagafirði sýndi öguð og vönduð vinnubrögð við krefjandi aðstæður og getur verið stolt af frammistöðunni.

Morguninn fyrir æfinguna var haldin minningarathöfn um Hall Sigurðsson, slökkviliðsmann, sem varð bráðkvaddur daginn sem síðasta æfing á Sauðárkróki var haldin.