Starfsmenn landsskrifstofu Rauða krossins æfa neyðarviðbrögð

28. feb. 2008

Í dag fer fram umfangsmikil neyðarvarnaræfing á landsskrifstofu Rauða krossins þar sem starfsmenn æfa viðbrögð við neyð. Öll starfssvæði landsskrifstofu verða virkjuð samkvæmt viðbragðsáætlun landsskrifstofunnar ef undan er skilið símaver Hjálparsímans, 1717. Einnig verða deildir Árnessýslu virkjaðar eins og um raunverulega neyð væri að ræða.

Æfingin tekur mið af því að tvær rútur lenda saman í uppsveitum Árnessýslu. Fjölmargir farþegar eru í rútunum, bæði innlendir og erlendir, og slasast margir, misalvarlega.

Markmiðið með æfingunni er fyrst og fremst að þjálfa starfsmenn í viðbragðsáætlun landsskrifstofunnar og sjálfboðaliða Árnesingadeildar í viðbragðsáætlun deildarinnar. Viðbragðsáætlun landsskrifstofu segir fyrir um skipulag og stjórnun aðgerða á landsskrifstofu Rauða krossins í almannavarnaaðgerðum. Hún á að tryggja skipulögð viðbrögð við neyð og að þolendum og aðstandendum berist öll nauðsynleg aðstoð á sem skemmstum tíma.