Fjöldahjálparstjórar á Norðurlandi æfa hópslys

5. mar. 2008

Námskeið fyrir fjöldahjálparstjóra var haldið í safnaðarheimilinu á Sauðárkróki síðastliðinn laugardag. 24 þátttakendur víðsvegar af Norðurlandi hlýddu á fyrirlestra og fóru í verklegar hópslysaæfingar.

Í upphafi námskeiðsins var farið í æfingu sem gengur út á að þátttakendur raða sér upp í hlutverk sem þarf að sinna samkvæmt SÁBF kerfinu. Gekk æfingin út á að rúta hafði oltið og þurftu allir sem á námskeiðinu voru að setja sig í þær aðstæður að um neyðartilfelli væri að ræða. Skemmst er að segja frá því að allt gekk upp þó mikill hamagangur væri á tímabili við að koma slösuðum á viðeigandi staði.

Fjöldahjálparstjórar stjórna starfi í fjöldahjálp og félagslegri aðstoð á neyðarstundu. Í því felst að setja upp móttökustaði (fjöldahjálparstöðvar), skrá niður upplýsingar eða veita aðhlynningu þeim sem hana þurfa. Námskeiðið er opið öllum sem hafa áhuga á og vilja starfa með Rauða krossinum í þessum málaflokki. Næsta námskeið verður haldið á Kirkjubæjarklaustri 8. mars.

Vettvangur hópslyssins.
Guðný, Sigrún Alda og Ásdís rýna í fjöldatölur sjúklinga.
Aðgerðarstjórn að störfum.
Jón Sigfús Bæringsson stóð vaktina í samhæfingarstöðinni.