Fjölmennt lið frá Rauða krossinum aðstoðar vegna elds í dvalarheimili

27. apr. 2008

Viðbragðsteymi Rauða krossins var kallað út vegna elds sem kom upp í íbúð að Dalbraut 27 í Reykjavík síðdegis í dag. Í húsinu eru þjónustuíbúðir fyrir aldraða en rýma þurfti um 50 manns úr íbúðum sínum vegna reyks sem lagði um húsið.

Níu sjálfboðaliðar og starfsfólk frá Rauða krossinum veittu fólkinu aðhlynningu og sálrænan stuðning. Íbúar 16 herbergja gátu ekki snúið heim til sín fyrir nóttina og var Rauði krossinn ásamt starfsfólki Dalbrautar í sambandi við aðstandendur þeirra og útvegaði þeim gistingu sem á þurftu að halda. Þá var starfsfólki boðin áfallahjálp.

Eldurinn kom upp í íbúð á annarri hæð hússins. Ekki er vitað um eldsupptök en nokkrir aðilar úr húsinu voru fluttir á slysadeild.