Flugslysaæfing í Vestmannaeyjum

29. apr. 2008

Rauði krossinn tók þátt í flugslysaæfingu í Vestmannaeyjum ásamt öðrum viðbragðsaðilum sem að neyðarhjálp og almannavörnum koma. Æfingin fór fram um síðustu helgi.

Mikill undirbúningur er fyrir æfingu sem þessa. Fræðsla og undirbúningsfundir voru haldnir í aðdraganda æfingarinnar, bæði með sjálfboðaliðum Rauða krossins og einnig sameiginlegir fundir með fulltrúum annarra viðbragðsaðila.

Fjölmargir sjálfboðaliðar Rauða kross deildar Vestmannaeyja komu að æfingunni með einum eða öðrum hætti til að manna fjöldahjálparstöð og söfnunarsvæði aðstandenda sem opnuð var í Arnardrangi, húsnæði deildarinnar. Einnig komu að æfingunni fulltrúar úr félagi eldri borgara ásamt fleirum og tóku þeir að sér að leika hlutverk aðstandenda þeirra sem skráðir voru í flugvélinni samkvæmt farþegalista. Allir sjálfboðaliðarnir tóku hlutverk sitt mjög alvarlega og stóðu sig frábærlega. Auk heimamanna komu að æfingunni fulltrúar frá landsskrifstofu Rauða krossins.

Stjórnendur æfingarinnar athuga hvort fjarskiptin virki vel.
Sjálfboðaliðum kynnt hlutverk þeirra sem aðstandenda.
Sigmar skýrir stöðu mála fyrir fólkinu á söfnunarsvæði aðstandenda.
Að lokinni æfingu var sest niður og rætt hvernig til tókst.
Strax þegar boðun kom frá Neyðarlínunni hófst undirbúningur að opnum fjöldahjálparstöðvar. Sigmar Georgsson stjórnarmaður Vestmannaeyjadeildar stjórnaði aðgerð í fjöldahjálparstöð af miklu öryggi og fagmennsku. Þar sem húsnæði deildarinnar býður uppá að skipta því niður var ákveðið að söfnunarsvæði aðstandenda yrði á jarðhæð en fjöldahjálparstöð á hæðinni fyrir ofan..

Sjálfboðaliðar Rauða krossins tóku þátt i aðgerðum á söfnunarsvæði slasaðra í Flugstöð. Þar aðstoðuðu þeir með ýmsum hætti, meðal annars með nærveru og stuðningi við þá sem voru lítt slasaðir, auk aðstoðar við að bera slasaða milli svæða á greiningarsvæði.

Að æfingu lokinni fór Jóhann Thoroddsen verkefnastjóri Rauða krossins í sálrænum stuðningi yfir stöðuna með sjálfboðaliðum. Það var mál manna að æfingin hefði tekist vel og margt mætti af henni læra. Slysin gera ekki boð á undan sér og því nauðsynlegt fyrir deildina að eiga á að skipa vel þjálfaða sjálfboðaliða og vera vel undirbúin til að takast á við verkefni á borð við þetta.