Rauði krossinn veitti 30 ferðamönnum áfallahjálp eftir umferðaslys

11. ágú. 2008

Rauði krossinn veitti  áfallahjálp 30 rútufarþegum sem lentu í hörðum árekstri á Suðurlandsveginum á 10. tímanum í morgun. Flestir farþegarnir voru erlendir ferðamenn, en einnig var hópur Íslendinga um borð í rútunni.

Viðbragðshópur Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu og starfsmenn veittu farþegunum sálrænan stuðning. Tekið var á móti hópnum á landskrifstofu Rauða krossins að Efstaleiti 9 þar sem farþegar fengu veitingar og viðurgjörning.

Rauði krossinn útvegaði túlka á ítölsku, portúgölsku, þýsku og ensku til að aðstoða ferðafólkið og hlúa að því. Fjórir voru fluttir á slysadeild til frekari aðhlynningar vegna minniháttar meiðsla.

Fulltrúar frá rútufyrirtækinu Kynnisferðum sátu einnig fyrir svörum til að greiða fyrir þeim farþegum sem kusu að halda ferð sinni áfram í dag. Þá kom bílstjóri rútunnar til að heilsa upp á fólkið eftir að hann var útskrifaður af slysadeild.

Margir voru slegnir, en allir héldu þó ró sinni. Tildrög slyssins voru að ökumaður jeppans, sem ók í átt að Hveragerði, hugðist beygja til vinstri inn á Kirkjuferjuveg og hafði nánast numið staðar til að bíða eftir rútunni, sem kom á móti. Þá bar að lítinn sendibíl, sem ók aftan á jeppann, sem kastaðist við það framan á rútuna og höfnuðu rútan og jeppinn utan vegar.