Æfð opnun fjöldahjálparstöðvar í Kársnesskóla

6. apr. 2009

Fjöldahjálparæfing var haldin í Kársnesskóla í Kópavogi á laugardag. Flugvél átti að hafa hrapað á íbúðarhúsnæði við Þingholtsbraut. Æfingin hófst með boðun frá Neyðarlínunni klukkan 12:05. Þeir fjöldahjálparstjórar Rauða krossins sem tóku þátt fóru strax í að opna fjöldahjálparstöðina og undirbúa komu þolenda.

Þolendur voru leiknir af sjálfboðaliðum Rauða kross deilda höfuðborgarsvæðis ásamt nýliðum björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ. Þeir létu skrá sig inn í fjöldahjálparstöðina og reyndi þá á þjálfun í sálrænum stuðningi, þar sem sumir þolendanna voru í miklu ójafnvægi.

Neyðarnefnd höfuðborgarsvæðisins vill koma á framfæri þakklæti til þátttakenda, leikara og fjöldahjálparstjóra fyrir þeirra þátt í vel heppnaðri æfingu.