Rauði krossinn um allan heim í viðbragðsstöðu vegna svínaflensu

28. apr. 2009

Alþjóða Rauði krossinn er í viðbragðsstöðu vegna útbreiðslu svínaflensu í Mexíkó og vegna tilfella sem komið hafa upp í Evrópu, Norður Ameríku og Ástralíu. Rauði krossinn er í nánu samstarfi við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina (WHO) og stjórnvöld um allan heim.

Rauði krossinn í Mexíkó hefur þegar virkjað sjálfboðaliða sína í um 500 deildum á landsvísu til að  vinna með yfirvöldum við að hindra frekari útbreiðslu inflúensunnar. Rauða kross hreyfingin hefur á undanförnum árum byggt upp viðbragðsáætlanir um allan heim til að hamla því að sjúkdómar sem þessir breiðist stjórnlaust út og verði að alheimsfaraldi. Þegar hefur vinna hafist samkvæmt neyðarvarnaráætlunum í löndum þar sem óttast er að um svínaflensutilfelli sé að ræða.

Hægt er að virkja tugþúsundir sérþjálfaðra sjálfboðaliða Rauða krossins og Rauða hálfmánans um allan heim með litlum fyrirvara til að bregðast við neyðarástandi sé þess þörf og hlúa að fólki í neyð. Rauði kross Íslands gegnir mikilvægu hlutverki í viðbragðsáætlun almannavarna vegna heimsfaraldurs unnflúensu og er því í viðbragðsstöðu líkt og önnur landsfélög Rauða kross hreyfingarinnar.