Alþjóða Rauði krossinn reiðubúinn að bregðast við inflúensu A (H1N1)

19. jún. 2009

Frá því að inflúensu A (H1N1) varð fyrst vart  hefur Alþjóða Rauði krossinn lagt mikla áherslu á styðja aukinn viðbúnað landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans við faraldrinum. Um leið hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) nú tilkynnt að inflúensan sé komin á 6. stig, en með því telst hún vera orðin að heimsfaraldri, þeim fyrsta í  40 ár.

„Virkja þarf landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans um allan heim þannig að þau séu tilbúin að bregðast við hamförunum og sinna stoðhlutverki sínu í samvinnu við stjórnvöld," segir Dominique Praplan, yfirmaður heilbrigðis og umönnunar hjá Alþjóða Rauða krossinum.

Frá því að veiran fannst fyrst í Mexíkó í apríl hafa Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn unnið mikið forvarnar- og undirbúningsstarf. Þar á meðal má nefna ráðgjöf til stjórnvalda og stofnana Sameinuðu þjóðanna á sviði neyðarviðbragða, samhæfingu samstarfsaðila úr hópi frjálsra félagasamtaka, fræðslu til almennings og sjúkraflutninga.

Í neyðarbeiðni frá 30. apríl óskaði Alþjóða Rauði krossinn eftir fjárframlögum til verkefnisins sem svara um bil 600 milljónum íslenskra króna (5 milljónir svissneskra franka). Búist er við að tilkynning Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um að faraldurinn hafi náð 6. stigi veki athygli á mikilvægi þessa starfs.

„Mjög mikilvægt er að stuðningsaðilar veiti verkefninu þann fjárhagslega stuðning sem þörf er á þannig að öll landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans geti sinnt nauðsynlegu forvarnar- og undirbúningsstarfi,“ útskýrir Robert Kaufman sem stýrir neyðarviðbrögðum hjá Alþjóða Rauða krossinum í Genf.

„Faraldurinn er greinilega farinn að breiðast út. Við vitum ekki hvernig sjúkdómurinn á eftir að þróast í framtíðinni, en við teljum að íbúar þróunarlanda séu í mestri hættu. Í fátækari löndum eru nauðstaddir mun líklegri til að verða fyrir áhrifum, jafnvel þó að þessi veira valdi að jafnaði fremur litlum veikindum. Oft þjást íbúar þróunarlanda af bágu næringarástandi og öðrum sjúkdómum sem draga úr viðnámsþrótti þeirra við fleiri sýkingum. Aldrei hefur verið jafnáríðandi að auka viðbúnað og efla forvarnir um allan heim til að draga úr áhrifum þessa heimsfaraldurs.“

Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn hafa mikla reynslu af baráttunni við farsóttir þar á meðal SARS og fuglaflensu. Frá því að A (N1H1) inflúensufaraldrurinn hófst hefur Alþjóða Rauði krossinn unnið náið með Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og öðrum mannúðarstofnunum að forvörnum og viðbrögðum við þessari nýju ógn.