28. des. 2006 : Nemendur og starfsfólk í Árskóla styðja börn í Mósambík

Efnt var til söfnunar í framhaldi af þemaviku um Afríku sem haldin var í Árskóla á Sauðárkróki í lok nóvember síðastliðinn. Nemendur og starfsmenn voru hvattir til að gefa sem svaraði andvirði eins matarmiða eða um 160 kr. og styðja um leið starf Rauða kross Íslands við börn í Mósambík.

Söfnunin gekk vel og margir lögðu fram drjúgan skerf  úr sparibauknum. Alls söfnuðust um 62 þúsund krónur. Söfnunarféð mun renna óskipt til barnaheimilisins Boa Esperansa í Mósambík.

22. des. 2006 : Jólakveðja

Akureyrardeild Rauða kross Íslands sendir sjálfboðaliðum sínum og velunurum bestu jóla og nýárskveðjur. Með þökk fyrir samstarfið á liðnu ári. 

Skrifstofa deildarinnar verður lokuð milli jóla og nýárs en fyrir viðkomandi skal bent á fatagáma fyrir utan húsnæði deildarinnar.

Skrifstofan opnar aftur þann 2. janúar 2007

18. des. 2006 : Styrkur til Mæðrastyrksnefndar

Það var í nógu að snúast hjá konunum í Mæðrastyrksnefnd þegar þær voru heimsóttar sl. fimmtudag. Þær voru í óðaönn að gera klárt fyrir úthlutun sem hefjast átti daginn eftir.  Greinilegt að þær höfðu víða farið og vel verið tekið á móti þeim því þarna voru staflar af alls kyns matvöru sem án efa á eftir að koma í góðar þarfir á einhverjum heimilum.

13. des. 2006 : Jólafundur heimsóknarvina

Síðasti fundur heimsóknarvina deildarinnar fyrir jól var haldinn 4. desember sl.   Aðalefni fundarinns var fræðsluerindi Líneyjar Úlfarsdóttur, en hún  starfar sem sálfræðingur hjá Reykjavíkurborg. Erindi Líneyjar fjallaði um meðvirkini og var mjög fróðlegt í alla staði.

Að loknu erindinu var boðið upp á kvöldverð og  opnað  fyrir spurningar og umræður bæði um erindi Líneyjar,  sem og um verkeni heimsóknavinanna.

5. des. 2006 : Vinnudagur

Það var að venju kátt á hjalla hjá sjálfboðaliðum deildarinnar sem lestuðu fatagám og innrömmuðu batikmyndir í sl. viku. Í tilefni af komandi aðventu var boðið upp á kiparkökur, kakó og jólaöl og var mæting það góð að skipt var liði þannig að hluti hópsins tók til við að ramma inn myndir á meðan aðrir lestuðu gám. 

21. nóv. 2006 : Deildanámskeið á Lundi

20. okt. 2006 : Heimsóknarvinum fjölgar hjá Akureyrardeild

Miðvikudaginn 18. október sl. var haldið námskeið fyrir verðandi heimsóknarvini hjá deildinni. Þetta var annað námskeiðið sem haldið hefur verið á þessu fyrsta ári sem verkefnið hefur verið í gangi hjá deildinni og því óhætt að segja að það fari vel af stað.  Á námskeiðinu fræddi Guðný H. Björnsdóttir, svæðisfulltrúi Rauða kross Íslands á Norðurlandi, þátttakendur um flest það sem viðkemur heimsóknarþjónstunni. Farið var í stuttu máli yfir sögu og starf Rauða krossins og starfsemi  Akureyrardeildar var kynnt. Tveir sjálfboðaliðar úr heimsóknarþjónustunni, hjónin Júlía Björnsdóttir og Þorsteinn E. Arnórsson,  sögðu einnig frá reynslu sinni og aðkomu að verkefninu en þau sóttu einmitt fyrra námskeiðið sem haldið var í janúar og hafa síðan  sinnt heimsóknum fyrir deildina.

12. okt. 2006 : Kynnig á „Föt sem framlag "

Á miðvikudag í sl. viku var haldinn fundur til að kynna verkefni sem nefnist föt sem framlag. Verkefnið hefur lengi verið í gangi hjá Rauða krossinum en undanfarin ár hefur nokkur óvissa verið um framgang verkefnisins. Það var því ánægjulegt af fulltrúi frá Rauða krossinum Linda Ósk Sigurðardóttir mætti til fundarinns og gerði grein fyrir þeirri vinnu sem lagt hefur verið í til að koma verkefninu í fastar skorður á ný. Sagði hún m.a. frá því að þær deildir sem hafa verið sinna þessu verkefni framleiði um 600 ungbarnapakka á ári en samkvæmt athugun er þörf fyrir allt að tvisvar til þrisvar sinnum fleiri pakka. Pakkarnir mun m.a. verða sendir til Malaví en gengið hefur verið frá því að þangað fari gámur einu sinni á ári næstu árin.  Nú ætti því að vera hægt að kynna verkefnið betur og vonandi á þá eftir að fjölga enn frekar í hópi sjálfboðaliða sem sinna vilja verkefniu ” Föt sem framlag”. 

3. okt. 2006 : Margir sem nýta sér fatamarkaðinn

Það er greinilegt að æ fleiri nýta sér markað Rauða krossins, því um 130 þúsund krónur söfnuðust þann 9. september sl þegar haldinn var markaður í húsnæði Akureyrardeildar. Að þessu sinni mun afraksturinn verða nýttur til stuðnings börnum sem eiga um sárt að binda vegna alnæmisfaraldursins í sunnanverðri Afríku.  Að venju voru það sjálfboðaliðar deildarinnar sem unnu að undirbúningi markaðarins.

Árlega berst deildinni um 5 tonn af fatnaði sem nýtist félaginu á margvíslegan hátt. Hluti fatnaðarins er nýttur  á mörkuðum hjá deildinni, hluti gefinn, bæði hérlendis og erlendis og hluti seldur fyrirtækjum í Evrópu og nýttist þannig sem tekjulind fyrir Hjálparsjóð Rauða krossins. 

13. sep. 2006 : Söfnunin gekk vel

10. ágú. 2006 : Rauði krossinn með fræðslu fyrir unglinga í vinnuskólum

Davíð Sigþórsson leiðbeinandi hjá Reykjavíkurdeild fræðir ungmenni í Vinnuskóla Reykjavíkur.

3. ágú. 2006 : Eftirtekt og snarræði Jóns Snorra

Jón Snorri Tómasson fékk heimsókn frá Rauða krossinum í tilefni afmælisdagsins. Sambýlið fékk skyndihjálpartösku að gjöf og tekur Sigríður Steinólfsdóttir forstöðuþroskaþjálfi við henni af Ingibjörgu Eggertsdóttur verkefnisstjóra Rauða krossins.

21. júl. 2006 : Vinnuskólakrakkar fá Rauða kross fræðslu

Hópur vinnuskólakrakka í hópavinnu undir stjórn Guðnýjar.
Undanfarna viku hafa 14 ára unglingar í vinnuskólanum á Akureyri sótt námskeið hjá Rauða krossinum.  Námskeiðið sem nefnist Viðhorf og virðing fjallar um fjölbreytileika mannlífsins, fordóma okkar og viðhorf til hinna ýmsu hluta. Þátttakendurnir um 150 talsins hafa einnig fengið fræðslu um starfsemi Rauða krossins.

23. jún. 2006 : Sjálfboðaliðar frá Mósambík í vettvangsferð á Norðurlandi

Rafael og María við Goðafoss.
Þann 15. júní fengu Rauða kross deildir á Norðurlandi heimsókn tveggja sjálfboðaliða frá Mósambík. Það eru þau Rafael Joao Muando og Maria Amaral Tinga. Þau hafa verið að kynna sér starf deildanna og Rauða kross Íslands.

Deildirnar hafa s.l. þrjú ár, eða frá 2004, verið í vinadeildasamstarfi við Rauða kross deildina í Mapúto í Mósambík. Á síðasta ári fóru þrír sjálfboðaliðar frá Norðurlandi í heimsókn til  vinadeildarinnar og var þar fastmælum bundið að tveir sjálfboðaliðar myndu endurgjalda heimsóknina á þessu ári.

19. jún. 2006 : Heimsókn sjálfboðaliða frá Mósambík til deilda á Norðurlandi

Rafael og María lentu heilu og höldnu á Akureyrarflugvelli um kl. 9 á fimmtudagskvöldið eftir langt og strangt ferðalag. Ekki gekk eins vel með farangurinn því hann skilaði sér ekki. Einhvers staðar skildu leiðir en  flugleiðin var frá Mapútó - Jóhannesarborg - Frankfurt-London - Kaupmannahöfn - Akureyri, þannig að það er ljóst að möguleikarnir eru nokkrir. Málið var sett í vinnslu og þegar þetta er skrifað, 17. júní, er önnur taskan komin í leitirnar.

17. jún. 2006 : Heimsókn frá Mósambík

Rafael og Maria ásamt Sigurði Ólafsyni formanni Akureyrardeildar.
Fimmtudagskvöldið 15. júní lentu hér á Akureyrarflugvelli tveir sjálfboðaliðar frá Rauða kross deildinni í Maputo í Mosambik. Þetta eru þau Rafael Joao Muando og Maria Amaral Tinga. Þau eru hér í boði Rauða kross deilda á Norðurlandi og munu kynna sér starf  Rauða kross Íslands og deildanna hér.

Þeirra heimsókn hófst hjá Akureyrardeild þar sem þau heimsóttu m.a. starfsfólk og gesti Lautar og gróðursettu  tvö tré í Kjarnaskógi og fengu að kynnast starfsemi deildarinnar. Þeim degi lauk með kvöldverði í húsnæði deildarinnar þar sem þau hittu sjálfboðaliða úr ýmsum verkefnum.

Gestirnir munu síðan halda Þau munu síðan halda vestur á bóginn til Skagafjarðardeildar og í móttöku á Blönduósi.til Húsavíkur þar sem þau verða í umsjá Húsavíkurdeildar en daginn eftir verða náttúruperlur Þingeyjarsýslu skoðaðar og meðal annar komið við í Jarðböðunum við Mývatn.. 

12. jún. 2006 : Stuðningur kemur víða að

Guðný Björnsdóttir svæðisfulltrúi Rauða kross Íslands tekur við peningagjöfinni úr hendi Ástu Gísladóttur nemanda í 10. bekk Hafralækjarskóla.
Á vordögum kom stúlknakór frá Englandi í heimsókn í Hafralækjarskóla í Aðaldal. Kórinn hélt tvenna tónleika á meðan á heimsókninni stóð.

Nemendur skólans höfðu ákveðið að innkoma vegna tónleikanna rynni til starfs Rauða kross deilda á Norðurlandi í Mósambík. Svæðisfulltrúi Rauða krossins mætti við skólaslit skólans og tók við 49 þúsund krónum.

Peningagjöfin kemur að góðum notum og mun vera nýtt til að mála barnaheimilið Boa Esperanca sem rekið er fyrir munaðarlaus börn í Mapútó.

10. jún. 2006 : Líf og fjör á markaði

Það var líf og fjör á markaði enda veður hið besta og margt fólk á ferðinni.
Það var líf og fjör um helgina hjá Akureyrardeild en  þá var haldinn markaður með notaðann fatnað og ýmsan nytjavarning. Fjöldi fólks leit við og víst er að margir gerðu góð kaup.  Veður var með eindæmum hagstætt og þótti því tilvalið að nota plássið utandyra. Þar var m.a.  til sölu  nokkur sófasett, rúm, stólar, hillur og ýmislegt smálegt, en auk þess fatnaður og skór í tonnavís.

1. jún. 2006 : Vinadeildasamstarf á Norðurlandi

Deildir Rauða krossins á Norðurlandi eru í vinadeildarsamstarfi í Mósambík. Tveir sjálfboðaliðar fóru í vettvangsferð.

31. maí 2006 : Markaður 9. og 10. júní

Markaður verður haldinn í húsnæði Rauða krossins, Viðjulundi 2, föstudaginn 9. júni kl. 14 – 18 og laugardaginn 10. júni kl. 10 – 16. Til sölu verður notaður fatnaður og skór, fullur haldapoki fyrir kr. 500,- Einnig verður  til sölu ýmis nytjavara eins og leirtau, leikföng og nokkur ágæt sófasett. Einnig verða til sölu sjúkratöskur ( púðar ) í bíla ( tvær stærðir ).

24. maí 2006 : Búin að sauma teppi í sextán ár

Ingunn Björnsdóttir hjá fingurbjörgunum sínum.
Það er ekki hægt að segja að hún sitji auðum höndum hún Ingunn Björnsdóttir sem er ein þeirra sem leggja Rauða krossinum lið með þátttöku sinni í verkefninu “ föt sem framlag “.  Ingunn er búin að vera að í sextán ár og það er næsta víst að þau eru mörg börnin úti í heimi sem hafa notið hlýjunar af teppunum hennar. 

12. maí 2006 : Söfnuðu með þvi að spila fyrir fólk.

Félagarnir Ingi Þór og Magnús söfnuðu 14.186 krónum fyrir Rauða krossinn.
Vinirnir Ingi þór og Magnús söfnuðu heilum 14.186 krónum fyrir Rauða krossinn. Það sem kannski er skemmtilegasts við þetta er að þeir fóru hús úr húsi með trommu og munnhörpu og léku frumsamin lög fyrir fólk. Þetta gerðu þeir í nokkra daga og fóru m.a. klæddir í fína búninga í verslunarmiðstöðina Glerártorg á Akureyri og héldu tónleika.

10. maí 2006 : Kynningarfundur um verkefni heimsóknarvina á Húsavík

Markmið með starfi heimsóknarvina er að veita félagsskap, nærveru, hlýju og rjúfa einsemd.
Svæðisfulltrúi Rauða krossins á Norðurlandi hélt kynningarfund um heimsóknarþjónustu hjá Húsavíkurdeild Rauða krossins s.l. fimmtudagskvöld. Þetta er liður í því að koma á heimsóknarþjónustu hjá deildinni og er stefnt á að halda námskeið fyrir heimsóknarvini í haust.

Kynningin var öllum opin og mættu 11 manns. Skemmst er frá því að segja að allir sem voru á kynningunni skráðu sig á námskeiðið. Góðar umræður spunnust og voru fundarmenn sammála um mikilvægi verkefnisins og mikil þörf væri fyrir hana í samfélaginu.

9. maí 2006 : Börn og umhverfi - Námskeið að byrja

Nú er skráning hafin á námskeiðið
Skráning er hafin á námskeiðið " Börn og umhverfi" áður Barnfóstrunámskeið.  Námskeiðið er ætlað fyrir 12 ára og eldri ( ´94 )  og á því er farið í ýmsa þætti er varða umgengni og framkomu við börn. Rætt er um árangursrík samskipti, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Fjallað er um slysavarnir og algengar slysahættur og veitt ítarleg kennsla í skyndihjálp.

9. maí 2006 : Þjóðahátíð á Sæluviku Skagfirðinga.

Það var þétt setinn bekkurinn á Þjóðahátíðinni sem Skagafjarðardeild Rauða krossins stóð fyrir.
Opið hús var í húsnæði Skagafjarðardeildar Rauða krossins fimmtudagsköldið 4. maí, á Sæluvikunni. Markmiðið var að kynna starf deildarinnar fyrir því erlenda fólki sem búsett er í héraðinu með það að markmiði að ná því að einhverju leiti inní starfið, s.s. túlkaþjónustu, en þó ekki síður til að vekja athygli á þeirri þjónustu sem Rauði krossinn stendur fyrir og einstaklingar af hvaða þjóðerni sem er geta leitað eftir.

Þar sem það er einnig löngu vitað að fátt trekkir betur að samkomuhaldi en matur var farið fram á að fulltrúar allra þeirra þjóða sem tök hefðu á mættu með einhverja smárétti sem gestir gætu smakkað á um leið og þeir blönduðu geði við gestgjafana.

Það er skemmst frá því að segja að vel tókst til með þessa frumraun. Fulltrúar 12 þjóða mættu með dýrindis mat, aðrir komu  til að kynna sér hvað væri í gangi og vera með næst og nokkrir sem ætluðu að vera með komust ekki vegna anna.

27. apr. 2006 : Akureyrardeild æfir neyðarvarnaviðbrögð

Æfingin var haldn í Lundarskóla í samvinnu við starfsfólk og nemendur skólans.
Miðvikudaginn 19. apríl hélt Akureyradeild neyðarvarnaæfingu í Lundarskóla, sem er einn af skipulögðum fjöldahjálparstöðvum deildarinnar.

Fjöldahjálparstjórar og aðrir sjálfboðaliðar æfðu sig í uppsetningu og starfrækslu fjöldahjálparstöðvar. Æfð var almenn umönnun, sálrænn stuðningur, skyndihjálp og samskipti með talstöðvum. Neyðarnefnd var staðsett í skólanum.

27. apr. 2006 : Akureyrardeild æfir neyðarvarnaviðbrögð

Æfingin var haldn í Lundarskóla í samvinnu við starfsfólk og nemendur skólans.
Miðvikudaginn 19. apríl hélt Akureyradeild neyðarvarnaæfingu í Lundarskóla, sem er einn af skipulögðum fjöldahjálparstöðvum deildarinnar.

Fjöldahjálparstjórar og aðrir sjálfboðaliðar æfðu sig í uppsetningu og starfrækslu fjöldahjálparstöðvar. Æfð var almenn umönnun, sálrænn stuðningur, skyndihjálp og samskipti með talstöðvum. Neyðarnefnd var staðsett í skólanum.

30. mar. 2006 : Menntskælingar í sjálfboðnu starfi

Nemendur MA taka til hendinni við fataflokkun.
Fjórðu bekkingar  í Menntaskólanum á Akureyri hafa undanfarnar vikur lagt Rauða krossinum lið með þátttöku í verkefnum Akureyrardeildar. Þetta er hluti af lífleikni áfanga og sinna nemendurnir ýmsum verkefnum fyrir félagssamtök og stofnanir. Í verkefninu er nemendum ætlað að leggja til  5-7 klukkustund í siramfélagsþjónustu og skila síðan skýrslu um verkefnið. Verkefninu lýkur síðan í byrjun apríl með opinni málstofu þar sem verkefnið verður til kynningar og umfjöllunar. 

30. mar. 2006 : Frétt RKÍ

29. mar. 2006 : Heimsóknarþjónustan formlega hafin

Heimsóknarvinir bera saman bækur sínar eftir að verkefnið er formlega komið af stað.
 Heimsóknarþjónusta á vegum Akureyrardeildar er nú formlega hafin. Fyrstu sjálfboðaliðarnir byrjuðu heimóknir 15. og 16. mars sl. og síðan hafa þeir einn af öðrum verið að byrja. Ábendingar um svo kallaða gestgjafa þ.e. einstklinga sem vilja þyggja þessar heimsóknir, hafa verið að berast og vonast er til að innan skammst verði allir heimsóknarvinir deildarinnar farnir að heimsækja sína gestgjafa.

27. mar. 2006 : Ein fjölmennasta neyðarvarnaræfing í sögu Rauða krossins

Davíð Oddsson var staddur í Fljótshlíðinni og mætti rétt fyrir lokun í fjöldahjálparstöðina á Hellu. Hann hafði á orði að hann hefði sennilega drukknað þar sem boðin bárust honum ekki.
Rúmlega 100 þátttakendur frá Rauða krossi Íslands voru í almannavarnaæfingunni Bergrisinn 2006 nú um helgina. Þetta er ein fjölmennasta æfing sem Rauði krossinn hefur átt aðild að, en hún var lokahnykkurinn í gerð nýrra viðbragðs- og rýmingaráætlana fyrir áhrifasvæði eldgosa, jökulhlaupa og gjóskufalls frá Mýrdals- og Eyjafjallajöklum.

20. mar. 2006 : Alþjóðastarfið kynnt í Háskólanum á Akureyri

Hafsteinn kynnti vinadeildarsamstarf deildanna á Norðurlandi við Rauða krossinn í Mosambik.
Alþjóðastarf  Rauða kross Íslands var umfjöllunarefni  Gests Hrólfsonar sviðsstjóra hjá RKÍ, í kynningu  fyrir nemendur Háskólanns á Akureyri sl. föstudag. Hann kynnti m.a.  helstu áherslur í starfinu í dag, muninum á neyðar- og þróunaraðstoð, starf sendifulltrúa ofl. Að loknu erindi Gests kynnti Hafsteinn Jakobsson, framkvæmdastjóri Akureyrardeildar, vinadeildasamstarf Rauða kross deildanna á Norðurlandi við Rauða krossinn í Mosambik.

15. mar. 2006 : Markaður tókst vel

Frá markaði hjá Akureyrardeild
Það má með sanni segja að það hafi verið líf í tuskunum sl. laugardag þegar haldinn var markaður með notuð föt í húsnæði Akureyrardeildar, Viðjulundi 2.  Á markaðnum var hægt að kaupa fullan haldapoka fyrir 500 krónur og víst er að margir gerðu góð kaup því vel á annað hundrað pokar seldust.

10. mar. 2006 : Markaður með notuð föt

Markaður - sjálfboðaliðar hafa unnið við að flokka fatnaðinn sem nú verður á boðstólnum.
Á morgun laugardag 11. mars verður haldinn markaður með notaðann fatnað ofl. í húsnæði deildarinnar Viðjulundi 2. Þetta er svo kölluð pokasala þar sem hægt er að kaupa fullan haldapoka af fötum fyrir 500 krónur. Markaðurinn verður opinn kl. 10:00 – 14:00

10. mar. 2006 : Aðalfundur Akureyrardeildar var haldinn 9. mars

Úlfar Hauksson, formaður RKÍ. sagði frá því sem helst er á döfinni hjá landsfélaginu.
Aðalfundur Akureyrardeildar var haldinn 9. mars sl. í húsnæði deildarinnar.  Á fundinum var formaður deildarinnar Sigurður Ólafsson  endurkjörinn til næstu tveggja ára auk þess sem tvær breytingar voru gerðar á stjórn. 

23. jan. 2006 : Námskeið í skyndihjálp

Námskeið í skyndihjálp verður haldið dagana 8. 9. 15. og 16. febrúar n.k. Um er að ræða 16 kennslustunda námskeið sem kennt verður í fjórum hlutum áðurnefnda daga.

23. jan. 2006 : Námskeið í sálrænni skyndihjálp

Námskeið í sálrænni skyndihjálp verður haldið í húsnæði Akureyrardeildar þriðjudaginn 7. febrúar n.k. kl. 19:30 - 22:30 Um er að ræða 9 klst. námskeið og er þetta fyrsti hluti af þremur. Seinni tveir hlutarnir verða síðan 13. og 14. febrúar á sama tíma.

20. jan. 2006 : Fjöldahjálparstjóranámskeið á Akureyri

Fjöldahjálparstjórar að störfum á flugslysaæfingu 2005
Fjöldahjálparstjóranámskeið verður haldið í húsnæði Akureyrardeildar Rauða krossins, Viðjulundi 2, dagana 27. - 28. janúar 2006.
Fjöldahjálparstjórar stýra starfi í fjöldahjálp og félagslegri aðstoð á neyðarstundu. Í því fellst að setja upp móttökustaði ( fjöldahjálparstöðvar ), skrá niður upplýsingar, og veita aðhlynningu þeim sem hana þurfa. Fjöldahjálparstjórar eru sjálfboðaliðar Rauða krossins og er námskeiðið opið öllum þeim áhuga hafa og vilja starfa með Rauða krossinum í þessum málaflokki.

19. jan. 2006 : Mikil aðsókn að námskeiði um geðsjúkdóma

Helga G. Halldórsdóttir frá Rauða krossinum var námskeiðsstjóri og Guðbjörg Sveinsdóttir fyrirlesari.
Um 100 manns sótti námskeið fyrir aðstandendur og áhugafólk um geðsjúkdóma sem  haldið var í Brekkuskóla á Akureyri dagana 13. og 14. janúar. Þetta er fimmta námskeiðið af þessum toga sem Rauði krossinn hefur haldið. Áður hafa verið námskeið á Egilsstöðum, Ísafirði í Borgarnesi og á Sauðárkróki.

Meginmarkmið námskeiðsins er að fræða um málefni geðfatlaðra og auðvelda fólki að mynda sjálfshjálparhópa.

Á námskeiðinu voru lögð drög að myndun slíkra sjálfshjálpar- og stuðningshópa. Næsta námskeið  verður haldið á Selfossi dagana 3. og 4. febrúar.

Fjallað var um  geðsjúkdóma, meðferðarúrræði, meðvirkni, sjálfsvirðingu og sjálfsstyrkingu, mikilvægi andlegrar og líkamlegrar heilsuræktar og farið yfir sorgarviðbrögð, áföll og úrvinnslu. Einnig var hópavinna og umræður.

10. jan. 2006 : Námskeið í heimsóknarþjónustu

 

Heimsóknarvinir að störfum
Námskeið fyrir sjálfboðaliða í heimsóknarþjónustu verður haldið miðvikudaginn 18. janúar n.k.  Það er liður í því að hefja heimsóknarþjónustu á vegum Akureyrardeildar  en krafa er um að allir þeir sem sinna ætla þessu verkefni skuli hafa sótt slíkt námskeið. Á námskeiðinu er fræðst um Rauða krossinn, sjálfboðið starf, heimsóknarþjónustu og almenna félagsþjónustu. Námskeiðið sem haldið er í húsnæði deildarinnar hefst kl. 18:00 og eru áætluð námskeiðslok kl. 21:30.