28. des. 2006 : Nemendur og starfsfólk í Árskóla styðja börn í Mósambík

Efnt var til söfnunar í framhaldi af þemaviku um Afríku sem haldin var í Árskóla á Sauðárkróki í lok nóvember síðastliðinn. Nemendur og starfsmenn voru hvattir til að gefa sem svaraði andvirði eins matarmiða eða um 160 kr. og styðja um leið starf Rauða kross Íslands við börn í Mósambík.

Söfnunin gekk vel og margir lögðu fram drjúgan skerf  úr sparibauknum. Alls söfnuðust um 62 þúsund krónur. Söfnunarféð mun renna óskipt til barnaheimilisins Boa Esperansa í Mósambík.

22. des. 2006 : Jólakveðja

Akureyrardeild Rauða kross Íslands sendir sjálfboðaliðum sínum og velunurum bestu jóla og nýárskveðjur. Með þökk fyrir samstarfið á liðnu ári. 

Skrifstofa deildarinnar verður lokuð milli jóla og nýárs en fyrir viðkomandi skal bent á fatagáma fyrir utan húsnæði deildarinnar.

Skrifstofan opnar aftur þann 2. janúar 2007

18. des. 2006 : Styrkur til Mæðrastyrksnefndar

Það var í nógu að snúast hjá konunum í Mæðrastyrksnefnd þegar þær voru heimsóttar sl. fimmtudag. Þær voru í óðaönn að gera klárt fyrir úthlutun sem hefjast átti daginn eftir.  Greinilegt að þær höfðu víða farið og vel verið tekið á móti þeim því þarna voru staflar af alls kyns matvöru sem án efa á eftir að koma í góðar þarfir á einhverjum heimilum.

13. des. 2006 : Jólafundur heimsóknarvina

Síðasti fundur heimsóknarvina deildarinnar fyrir jól var haldinn 4. desember sl.   Aðalefni fundarinns var fræðsluerindi Líneyjar Úlfarsdóttur, en hún  starfar sem sálfræðingur hjá Reykjavíkurborg. Erindi Líneyjar fjallaði um meðvirkini og var mjög fróðlegt í alla staði.

Að loknu erindinu var boðið upp á kvöldverð og  opnað  fyrir spurningar og umræður bæði um erindi Líneyjar,  sem og um verkeni heimsóknavinanna.

5. des. 2006 : Vinnudagur

Það var að venju kátt á hjalla hjá sjálfboðaliðum deildarinnar sem lestuðu fatagám og innrömmuðu batikmyndir í sl. viku. Í tilefni af komandi aðventu var boðið upp á kiparkökur, kakó og jólaöl og var mæting það góð að skipt var liði þannig að hluti hópsins tók til við að ramma inn myndir á meðan aðrir lestuðu gám.