29. mar. 2007 : Vaxandi starfsemi

Aðalfundur deildarinnar var haldinn þriðjudaginn 13. mars. Fram kom í máli Sigurðar Ólafssonar, formanns,  að starfsemi deildarinnar hafði verið með allra besta móti á liðnu ári. Félögum og sjálfboðaliðum hafði fjölgað nokkuð og verkefni sjálfboðaliða gengið vel.
Þrátt fyrir nokkuð rekstrartap þá var hagnaður ársins rúmar 27 þúsund krónur og fjárhagsstaða deildarinnar viðunandi. Lögð var fram fjárhags og framkvæmdaáætlun fyrir árið 2007, og gera þær ráð fyrir að reksturinn veriði með svipuðu sniði og á ný liðnu ári.
Á fundinum var kosin ný stjórn, og í stað Sigríðar M. Jóhannsdóttur, Láru Ellingssen og Maríu Pétursdóttur  sem nú gengu úr stjórn komu þær Auður Ásbjörnsdóttir, Esther Brune og Dusanka Kotaras.

26. mar. 2007 : Nýútskrifaðir fjöldahjálparstjórar á Norðurlandi

Fjöldahjálparstjórnarnámskeið var haldið á Húsavík um síðustu helgi. Mæting var góð, eða 23 manns, sem komu frá öllum deildum Rauða krossins í Þingeyjarsýslu.

20. mar. 2007 : Nemendur Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra tók þátt í hlutverkaleiknum Á flótta

Hlutverkaleikurinn Á flótta var leikinn á Norðurlandi síðastliðna helgi í samstarfi Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildar og Skagafjarðardeildar Rauða kross Íslands og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Er þetta í fyrsta sinn sem slíkt samstarf hefur verið með uppsetningu leiksins.

20. mar. 2007 : Öxafjarðardeild og Raufarhafnardeild sameinaðar

Fimmtudaginn 15. mars var haldinn á Kópaskeri stofnfundur nýrrar Rauða kross deildar, Öxarfjarðardeildar Rauða kross Íslands, sem varð til við sameiningu deildanna á Raufarhöfn og í Öxarfirði. Á fundinum voru lagðar fram starfsreglur fyrir hina nýju deild, farið yfir starfs- og framkvæmdaáætlanir deildanna fyrir sameiningu og mun það vera eitt að fyrstu verkefnum stjórnar að vinna að sameiningu áætlananna.

Stofnfundurinn var haldinn í framhaldi af samþykkt aðalfunda og síðan framhaldsaðalfunda Raufarhafnar- og Öxafjarðardeilda Rauða krossins þar sem ákveðið var að sameina deildirnar undir nafni Öxarfjarðardeildar. Fjallað var um sameininguna á stjórnarfundi Rauða kross Íslands þann 23. febrúar sl. og samþykkti stjórnin hana. Starfssvæði hinnar nýju deildar nær frá Kelduhverfi í vestri og austur fyrir Raufarhöfn. Deildir Rauða krossins eru nú 50 að tölu.

6. mar. 2007 : Sjálfboðaliðar fræðast um Rauða krossinn

Grunnnámskeið Rauða krossins var haldið hjá Akureyrardeild sl. mánudag 5. mars. Á námskeiðinu er farið yfir sögu og hugsjónir Rauða krossins, uppbyggingu félagsins og starfið hér heima og erlendis.  Verkefni sjálfboðaliða eru kynnt, sjálfboðaliðasamningur og þær skildur sem hvíla á sjálfboðaliðanum og félaginu.  Öllum jálfboðaliðum Rauða krossins sem sinna ákveðnum verkefnum að staðaldri er ætlað að búa yfir grunnþekkingu á félaginu og starfsemi þess.

1. mar. 2007 : Námskeið í sálrænum stuðningi fyrir norðan

Um síðustu helgi var haldið framhaldsnámskeið í sálrænum stuðningi á Akureyri fyrir þá fjöldahjálparstjóra sem vinna með deildum Rauða krossins á Norðurlandi. Þátttakendur voru 17 og komu frá átta deildum.