30. jan. 2008 : Markaður gekk vel

Um nýliðna helgi var haldinn enn einn markaðurinn hjá deildinni og gekk hann að venju vel. Áætla má að nærri þrjú hundruð manns hafi litið við hjá deildinni og væntanlega margir gert góð kaup. Sjálfboðaliðar deildarinnar sem sjá nánast alfarið um markaðinn og undirbúning hans hafa valið fatnaðinn sem er í mörgum tilvikum mjög góður og gullmolar þar innan um.

29. jan. 2008 : Austur- Húnavatnssýsludeild fer af stað með heimsóknaþjónustu

Námskeið fyrir heimsóknavini var haldið á Blönduósi á mánudaginn og sóttu það sjö konur.
 
Í kjölfar námskeiðsins bætist Austur- Húnavatnssýsludeild Rauða krossins í hóp þeirra deilda sem bjóða upp á þjónustu heimsóknavina.
 
Námskeiðið var með hefðbundnu sniði. Farið var yfir tilgang verkefnisins og verklag. Leiðbeinandi var Guðný H. Björnsdóttir svæðisfulltrúi á Norðurlandi og Einar Óli Fossdal formaður Austur -Húnavatssýsludeildar sagði frá starfi deildarinnar.

18. jan. 2008 : Skagafjarðardeild bregst við vegna bruna á Kaffi Krók

Skagafjarðardeild Rauða krossins var kölluð út af Brunavörnum Skagafjarðar um klukkan 1:30 í nótt vegna bruna á Kaffi Krók. Tveir sjálfboðaliðar deildarinnar voru mættir í húsnæði deildarinnar, sem er við hlið Kaffi Króks, tveimur mínútum síðar. Húsið var opið fyrir slökkviliðsmönnum og öðrum sem á þurftu að halda.
 
Stanslaus umferð fólks var fram yfir klukkan 5 þegar slökkvistarfi var formlega hætt.

Neyðarskipulag deildarinnar virkaði vel. Auðveldlega gekk að útvega nauðsynjar þar sem N1 og Bakarí Sauðárkróks brugðust vel við  þegar leitað var til þeirra.

18. jan. 2008 : Vinabönd til styrktar börnum í Mósambík

Rauða kross deildinni á Skagaströnd voru afhentar 25 þúsund krónur sem eiga að renna til athvarfsins Boa Esperanca í Mapútó í Mósambík.

Það var 6. bekkur grunnskólans á Skagastörnd sem fékk þá hugmynd að útbúa vinabönd fyrir alla íbúa staðarins. Hreppsfélagið keypti öll böndin og voru þau borin í hvert hús á Skagaströnd í gær.

Krökkunum var veitt viðurkenning frá vikublaðinu Feyki, sem Norðvestlingar ársins 2007. Elsti og yngsti nemandinn
tóku við viðurkenningunni fyrir hönd krakkanna.