24. okt. 2008 : Útkall vegna flugfarþega

Eins og fram hefur komið i fréttum var aftakaveður á sunnanverðu landinu í gærkvöldi og nótt sem leið. Hafði þetta þau áhrif á millilandaflug að ekki var hægt að lenda í Keflavík og þurftu því þrjár vélar að lenda á Egilsstöðum og tvær á Akureyri.
Í flugstöðinni á Akureyri var ansi þröngt á þingi meðan verið var að finna út úr hvernig hægt væri að koma farþegunum fyrir yfir nóttina.
 

23. okt. 2008 : Margir sitja námskeið í sálrænum stuðningi

Þeir sem sátu námskeið Rauða krossins í sálrænum stuðningi sem haldið var sl. þriðjudag geta vonandi nýtt sér eitthvað af því sem þar var kennt. Sem betur fer ýmislegt sem flestir tileinka sér og telst til almennrar skynsemi en einnig margur fróðleikur sem gott er að styðjast við þegar á þarf að halda. Þátttakendur á þessu námskeiði voru m.a. starfsfólk stéttarfélaga, starfsfólk stofnanna Akureyrarbæjar ofl. Leiðbeinandi var Sigríður Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og leiðbeinandi hjá Rauða krossinum.

22. okt. 2008 : Nýir heimsóknavinir á Skagaströnd

Námskeið fyrir verðandi heimsóknavini á Norðurlandi var haldið á vegum Skagastrandardeildar í síðustu viku og sóttu það átta konur frá Skagaströnd og Blönduósi.

21. okt. 2008 : Námskeið í sálrænum stuðningi

Námskeið í sálrænum stuðningi verður haldið í dag þriðjudag 21. október kl. 16 - 18.

Námskeiðið er haldið í húsnæði Einingar - Iðju við Skipagötu og hefst eins og fyrr segir kl. 16:00.

Þátttakendur á þessu námskeiði er starfsfólk ýmissa stofnana. 

Hægt er að nálgast kennsluglærurnar hér.

Leiðbeinandi á námskeiðinu er Sigríður Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur.

16. okt. 2008 : Fjölmennt námskeið um sálrænan stuðning

Fjölmenni sótti í dag námskeið í sálrænum stuðningi sem deildin hélt í safnaðarheimili Glerárkirkju.  Námskeiðið er hluti af  undirbúningi sem ýmsar stofnanir og félagssamtök eru að vinna að í tengslum við þá erfiðu stöðu sem samfélagið stendur nú frammi fyrir.  
 
Á námskeiðinu var m.a. fjallað um ýmiskonar áföll og  kreppur, sem og einkenni og áhrif alvarlegra atvika á einstaklinga.

 

10. okt. 2008 : Hjálparsími Rauða krossins 1717 er alltaf opinn!

Hjálparsími Rauða krossins 1717 er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð vegna depurðar, kvíða, þunglyndis eða sjálfsvígshugsana. Tilgangurinn með Hjálparsíma Rauða krossins er að vera til staðar fyrir þá sem finnst þeir vera komnir í öngstræti en vilja þiggja aðstoð til að sjá tilgang með lífinu.

Síðustu daga hefur fjöldi manns hringt í 1717 í tengslum við fjárhagsáhyggjur og vanlíðan vegna þeirra umbrota sem eiga sér stað í þjóðfélaginu. Starfsmenn og sjálfboðaliðar 1717 veita upplýsingar um hvar leita megi frekari úrræða ásamt því að veita sálrænan stuðning á erfiðum tímum.

7. okt. 2008 : Heimsóknavinaverkefni að hefjast hjá Siglufjarðardeild

Námskeið fyrir verðandi heimsóknavini var haldið á vegum Siglufjarðardeildar í vikunni og sóttu það fimmtán konur.
 
Siglufjarðardeild er sú tíunda í röð deilda á Norðurlandi sem áætlar að fara í verkefnið. Hópstjórar verða þær Margrét Guðmundsdóttir og Mundína Bjarnadóttir.
 
Steinar Baldursson gjaldkeri Siglufjarðardeildar sagði frá starfsemi deildarinnar en leiðbeinandi námskeiðsins var Guðný H. Björnsdóttir, svæðisfulltrúi á Norðurlandi.

6. okt. 2008 : Göngum til góðs - takk fyrir aðstoðina

Um 130 sjálfboðaliðar gengu til góðs á svæði Akureyrardeildar í landssöfnun Rauða krossins sem fram fór sl. laugardag 4. október.  Með þessari góðu þátttöku var hægt að ganga í nánast hvert hús á svæðinu og eiga sjálfboðaliðar þakkir skildar fyrir aðstoðina. Jafnframt ber að þakka þeim aðilum og fyrirtækjum sem aðstoðuðu með einum eða öðrum hætti við undirbúning söfnunarinnar og auðvitað öllum þeim sem styrktu söfnunina með fjárframlögum.  

5. okt. 2008 : Færri Gengu til góðs en fengu frábærar móttökur

Um 1000 sjálfboðaliðar Gengu til góðs í gær með Rauða krossinum til styrktar verkefnis um sameiningu fjölskyldna í Kongó sem sundrast hafa vegna stríðsátaka. Reynslan hefur sýnt að það þarf að minnsta kosti um 2000 manns til að ganga í öll hús á landinu, og því er ljóst að einungis tókst að ná til um 50% landsmanna í söfnuninni í gær. Rauði krossinn er mjög þakklátur þeim sem gáfu af tíma sínum í gær og Gengu til góðs, og vill einnig þakka þeim sem tóku á móti sjálfboðaliðunum og gáfu í söfnunina.

Rauði krossinn hvetur þá sem ekki gafst tækifæri til að gefa í söfnunina í gær að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins 903 1010, 903 3030 og 903 5050. Þá dragast frá kr. 1000 kr., kr. 3000 kr. eða kr. 5000 frá næsta símreikningi. Símarnir verða opnir út þessa viku.