26. nóv. 2008 : Nedelljka Marijan gefur út ljóðabók

Út er komin ljóðabókin  “ Tár, kerti og blóm “ eftir Nedeljka Marijan.
Nedeljka kom til Akureyrar árið 2003 í hópi flóttamanna.  Hún hefur verið dugleg að semja ljóð og í bókinni eru 22 ljóð sem hún hefur samið frá þeim tíma er hún kom til Íslands.   Ljóðin eru bæði sett upp á íslensku og serbnesku  og  þar sem erfitt getur verið að þýða ljóð má segja að um 44 ljóð sé að ræða.
Höfundur segir í formála að bókin sé skrifuð til að segja lesendum frá tilfinningum sínum og hún sé skrifuð án aðstoðar við íslenskt ritmál. Þannig séu þær villur sem lesandi sér hluti af þeirri ósk höfundar að læra íslensku.
 

26. nóv. 2008 : Jólafatasöfnun lokið

Síðastliðin föstudag lauk söfnun á jólafatnaði sem staðið hafði yfir í nokkrar vikur. Er nú verið að fara yfir það sem safnaðist mun Mæðrastyrksnefnd síðan sjá um að úthluta fatnaðinum. Fyrir þá sem ekki vita er Mæðrastyrksnefnd til húsa í Íþróttahöllinni og er gengið inn að vestan þ.e.a.s frá Þórunnarstræti. Opnunartími þar er á þriðjudögum frá kl. 12 – 18 og síðan alla daga frá 16. – 21. desember kl. 10 - 18 Þeim sem tóku þátt í söfnuninni eru hér með færðar bestu þakkir fyrir.

25. nóv. 2008 : Þjóðadagur og 50 ára afmæli Húsavíkurdeildar

Húsavíkurdeild Rauða krossins hélt fagnað þann 15. nóvember í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá stofnun deildarinnar. Formaður deildarinnar Ingólfur Freysson setti hátíðina.

Kristján Sturluson framkvæmdastjóri og Guðný Björnsdóttir svæðisfulltrúi á Norðurlandi fluttu deildinni afmæliskveðjur og Sigurjón Jóhannesson flutti brot úr fimmtíu ára sögu deildarinnar en hann var fyrsti formaður hennar.

Samhliða afmælisfagnaði buðu einstaklingar frá 12 þjóðlöndum ásamt Húsavíkurdeildinni í samstarfi við Öxarfjarðardeild almenningi til „þjóðadags" í sal Borgarhólsskóla á Húsavík. Þar kynntu nýir og eldri „nýir Íslendingar" þjóðlönd sín, menningu, siði, matarhefðir, listir og handverk auk þess sem tónlistaratriði og söngur ómaði um salinn frá ólíkum þjóðlöndum. 

18. nóv. 2008 : Frétt RKÍ

12. nóv. 2008 : Markaðir og þjóðadagur um helgina

Afmæli Húsavíkurdeildar og þjóðadagur
Í tilefni 50 ára afmælis Húsavíkurdeildar Rauða krossins verður haldinn þjóðadagur laugardaginn 15. nóvember í sal Borgarhólsskóla á Húsavík. Dagskráin hefst kl.14:00.
 
Fatamarkaður á vegum Rauða kross deildar Austur Húnavatnssýslu
Laugardaginn 15. nóvember kl. 14:00 - 17:00 verður haldinn fatamarkaður á vegum Rauðakrossdeildar A-Hún í húsi deildarinnar að Húnabraut 13 á Blönduósi.

Kópavogsdeild Rauða krossins heldur handverksmarkað laugardaginn 15. nóvember kl. 10-18 í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11, 2. hæð. Seld verða handverk sjálfboðaliða deildarinnar, sauma- og prjónavörur, kökur og annað föndur. Einnig verður handverk frá Mósambík til sölu, skartgripir, box, töskur, batik-myndir og fleira.

12. nóv. 2008 : Námskeið í sálrænum stuðningi á Blönduósi

Námskeið í sálrænum stuðningi var haldið um helgina á vegum Rauða kross deildar Austur Húnavatnssýslu. Mikil aðsókn var að námskeiðinu eða 26 þátttakendur.