29. apr. 2009 : Lestun gáms - Markaður

Á dögunum var lestaður gámur með fatnaði sem safnast hafði undanfarnar vikur og mánuði.  Í framhaldinu, nánar tiltekið um kosningahelgina, var síðan hadinn markaður þar sem nýskapað gólfpláss er nýtt til hins ítrasta.  Markaðurinn sem og undibúningur hans gekk með ágætum enda handtökin farin að lærast og sjálfboðaliðahendurnar margar og fúsar.  Með hækkandi sól og vorkomu var hluti markaðarinns færður út undir bert loft  og  hvorki tekið mark á opinberum hitamælum né regndropum í frjálsu falli. Til að lífga enn frekar upp á stemninguna var boðið upp lifandi músík. Var það eiginmaður eins sjálfboðaliðans sem starfaði við markaðinn mætti með harmonikkuna og tók nokkur lög.

 

27. apr. 2009 : Föt sem framlag frá handverkskonum á Dalvík

Handverkskonur á dvalarheimilinu Dalbæ á Dalvík kölluðu eftir fulltrúum frá Rauða krossinum til að veita viðtöku 122 handprjónuðum teppum, í öllum regnbogans litum, og öðrum prjónavörum. Ekki er nema u.þ.b. ár síðan þær gáfu svipað magn til Rauða krossins.

Þau Símon Páll Steinsson formaður Dalvíkurdeildar og Guðný Björnsdóttir svæðisfulltrúi tóku á móti gjöfinni og þökkuðu konunum fyrir þeirra óeigingjarna starf.

Að því loknu voru vistmönnum sýndar myndir frá afhendingu á fatapökkum í Malaví frá síðasta ári og hlaut það góðar undirtektir.

21. apr. 2009 : Flugslysaæfing á Þórshöfn

Fyrir tilstuðlan Flugstoða var haldin flugslysaæfing á Þórshafnarflugvelli á laugardaginn.

Sjálfboðaliðar Þórshafnardeildar Rauða krossins tóku þátt i æfingunni ásamt öðrum viðbragðsaðilum.

2. apr. 2009 : Hláturjóga - Ekki aprílgabb

Kristján Helgason hláturleiðbeinandi kom á fund heimsóknarvina með fræðslu um hlátur og lagði fyrir þá nokkur verkefni sem heimsóknarvinir leystu með bros á vör ef svo má segja. Kannski mættu einhverjir bara til að ganga úr skugga um hvort þarna væri enn eitt aprílgabbið á ferð. Þátttakendur fengu að sannreyna það að hlátur getur losað um spennu, aukið blóðflæði og frískað þar með bæði upp á líkama og sál. Og ef gamla máltækið um að hlátur lengi lífið er satt, þá hafa þátttakendur ávaxtað vel þann klukkutíma sem þeir vörðu í hláturæfingarnar. Eitt af því sem fram kom hjá Kristjáni er að fólk er yfirleitt að nota mjög grunna öndun og þar af leiðandi aðeins að endurnýja það loft sem liggur efst í lungunum og öndunarveginum. Auðvitað var þessi fróðleiksmoli notaður af þátttakendum sem skýring á því af hverju sumir væru svo andfúlir.