29. maí 2009 : Hlustum á börnin – átaksvika Hjálparsíma Rauða krossins 1717

Hlutleysi – Skilningur – Trúnaður - Nafnleysi

Hjálparsími Rauða krossins 1717 stendur fyrir átaki vikuna 31. maí til 6. júní undir yfirskriftinni Hlustum á börnin. Með átaksvikunni vill Hjálparsíminn 1717 minna fólk á að vera vakandi yfir líðan barna á erfiðum tímum og einnig upplýsa börn og unglinga um að þau geti fengið ráðgjöf og upplýsingar um úrræði sem standa þeim til boða með því að hringja í 1717.

Fjölmargar rannsóknir sýna fram á að þunglyndi, sinnuleysi og kvíði foreldra færist yfir á börn þeirra. Við þær aðstæður eru foreldrar í minna mæli í stakk búin til þess að veita börnum sínum öryggi, hlýju og athygli. Börn elska foreldra sína og þurfa að fá staðfestingu á að þeir hafi tíma fyrir þau og hlusti á þau. Það sem börn þrá framar öllu er samvera við sína nánustu.

27. maí 2009 : Viðbragðshópur settur á stofn

Settur hefur verið á stofn viðbragðshópur innan neyðarvarnaskipulags Akureyardeildar.
Hópurinn er hugsaður sem stuðningur við lögreglu og Sökvilið Akureyar ef rýma þarf íbúðir vegna bruna eða annarra sambærilegra atburða.
Gengið var frá samkomulagi milli þessara aðila nú í dag. Að því tilefni skoðuðu menn neyðarvarnalager deildarinnar sem unnið hefur verið við að endurskipuleggja að undanförnu.
 

 

24. maí 2009 : Vettvangsliðar útskrifast

Formleg  skólaslit voru  í Sjúkraflutningarskólanum sl. föstudag. Þar voru útskrifaðir nemendur vetrarins og þar á meðal 11 manna hópur frá Rauða krossinum sem lokið hafði námi sem vettvangsliðar ( First- Responder ).  Um er að ræða 40 kennslustunda nám sem að þessu sinni fór fram á Narfastöðum í Reykjadal í tveimur námslotum í febrúar.  Af þessum 11 manna hópi voru 8 manns frá Akureyrardeild.

 

19. maí 2009 : Sjálfboðaliðar fá viðurkenningu á Aðalfundi

Á Aðalfundi Rauða kross Íslands sem haldinn var í Vík um nýliðna helgi voru tveir sjálfboðaliðar frá deildinni meðal þeirra sem hlutu viðurkenningu Landsfélagsins. Þetta voru þau Aðalheiður Vagnasdóttir, sem m.a. hefur staðið vaktina við fatasöfnun hjá deildinni undanfarin misseri og Sigurður Ólafsson, fyrverandi formaður deildarinnar. Þau fengu bæði viðurkenningu fyrir vel unnin og farsæl störf í þágu Rauða krossins  í gegnum tíðina.
Akureyarardeild óskar þeim hjartanlega til hamingju með viðurkenninguna.

18. maí 2009 : Sæææll... ert ekki að grínast.

Nú þegar skólaárinu er um það bil að ljúka hjá grunnskólunum er ekki óalgengt að dagarnir séu nýttir í útikennslu og til að fara í vettvangsferðir. Þannig kom  t.d. þriðji bekkur úr Glerárskóla í heimsókn í Rauða krossinn í síðustu viku.  Krakarnir fengu fræðslu um Rauða krossinn og smá hressingu áður en þau héldu aftur af stað, en þau fóru auðvitað fótgangandi í milli. Eins og venjulega var bæði ýmislegt sem þau vissu og vissu ekki um Rauða krossinn og voru þau því bæði fús til að spyrja og til að miðla af þekkingu sinni.