25. jún. 2009 : Fræðsla Hvammstangadeildar fyrir vinnuskólann

Rúmlega tuttugu nemendur í vinnuskólanum á Hvammstanga fengu fræðslu frá Hvammstangadeild Rauða kross Íslands í vikunni. Á þessum stutta fundi lærðu þau um upphaf Rauða krossins og helstu verkefnum hans bæði innanlands sem utan.
 
Krakkarnir spreyttu sig á ýmsum vandamálum og þurftu að finna lausnir á þeim. Þau voru látin gera fyrir skoðunum sínum á hinum ýmsu viðfangsefnum og urðu að færa rök fyrir máli sínu.

25. jún. 2009 : Heimsókn í sumarbúðir fatlaðra á Löngumýri

Þau Hafsteinn Jakobson, framkvæmdastjóri Akureyrardeildar og Guðný Björnsdóttir, svæðisfulltrúi heimsóttu sumarbúðirnar að Löngumýri nú í vikunni.
 
Voru sumarbúðagestir að koma úr flúðasiglingu og var það glaður og ánægður hópur sem  mætti þeim í húsnæði Ævintýraferða. Þegar menn höfðu losað sig við blautgallana var  haldið heim að Löngumýri í miðdagskaffi og eftir smá hvíld var haldið aftur af stað en þá lá leiðin í sund í Varmahlíð þar sem sumir fóru í sundleikfimi en aðrir létu nægja að láta líða úr sér í heitapottinum og svamla um í lauginni.

24. jún. 2009 : Skyndihjalparhópur kemur saman

Í vikunni kom hluti af skyndihjálparhópnum á Norðurlandi saman til skrafs og ráðagerða í Viðjulundi 2. Rædd voru m.a. búnaðarmál, næstu æfingar og vaktir um Verslunarmannahelgina.
Að því loknu fór hópurinn niður á slökkvistöð til æfinga. Sett voru á svið umferðaslys þar sem þátttakendur æfðu björgun úr bílflaki. Að venju hafði hópurinn bæði gagn og gaman af þessum æfingum.
 

22. jún. 2009 : Lifað og leikið á Löngumýri

Sumarbúðir Rauða krossins fyrir fatlaða einstaklinga sem haldnar eru á Löngumýri og í Stykkishólmi byrjuðu sitt fyrsta tímabil um síðustu helgi í Skagafirðinum. Þær eru haldnar 11. árið í röð á Löngumýri en 5. sumarið í Stykkishólmi. Karl Lúðvíksson hefur verið sumarbúðastjóri á Löngumýri frá upphafi en Gunnar Svanlaugsson er við stjórnvölinn í Stykkishólmi. Fullbókað er á öll tímabilin en um 60 þátttakendur munu sækja sumarbúðirnar í sumar.

Dagskráin er fjölbreytt. Auk skoðunarferða er farið á hestbak, í flúðasiglingar og sjóstangaveiði, golf, júdó, leiki og kennd er skyndihjálp, auk fræðslu um Rauða krossinn. Flesta daga er farið í sund og kvöldvaka með þátttöku sumarbúðagesta hvert kvöld.

19. jún. 2009 : Sundlaugafólk á námskeiði

Það þarf ekki að hafa um það mörg orð hversu gagnlegt það getur verið að kunna skil á skyndihjálp þegar á reynir. Margir eru enda duglegir og samviskusamir að læra og viðhalda kunnátti sinni á því sviði.  Stærstur hluti af þeim skyndihjálparnámskeiðum sem haldin eru á vegum deildarinnar eru haldin fyrir ýmis fyrirtæki og hópa. Meðal þeirra hópa sem hvað duglegastir eru að sækja námskeið er starfsfólk  sundlauga. 
Á dögunum var starfsfólk sundlauga hér af svæðinu á árlegu námskeiði þar sem fyrst er farið yfir hlutina í kennslustofunni og síðan í lauginni. 

12. jún. 2009 : Starfið á árinu 2008

8. jún. 2009 : 50 sérfræðingar í barnapössun útskrifast

Um 50 krakkar sóttu námskeiðið Börn og umhverfi sem haldið var hjá deildinni fyrir skemmstu. Um er að ræða tvo hópa og lauk seinni hópurinn sínu námskeiði sl. föstudag.
Námskeiðið Börn og umhverfi er ætlað börnum 11 ára og eldri sem vilja læra að gæta ungra barna.  Þar læra þau m.a.  undirstöðuatriði varðandi umgengni og umönnun barna, helstu áhættuþætti varðandi slys og óhöpp og hvernig bregðast skal við með skyndihjálp svo eitthvað sé nefnt.