30. nóv. 2009 : Nýir heimsóknavinir hjá Siglufjarðardeild

Námskeið fyrir heimsóknavini var haldið á vegum Siglufjarðardeildar í vikunni og sóttu það fjórir einstaklingar og var kynjaskiptin jöfn. Fyrir er öflugur hópur heimsóknavina hjá deildinni sem eingöngu var skipaður konum og var því ánægjulegt að karlmenn skulu nú hafa bæst í hópinn.
 
Námskeiðið var með hefðbundnu sniði. Leiðbeinandi var Guðný H. Björnsdóttir, svæðisfulltrúi og gjaldkeri deildarinnar Steinar Baldursson sagði frá starfi deildarinnar. Hópstjórar í heimsóknaþjónustu eru þær Margrét Guðmundsdóttir og Mundína Bjarnadóttir, stjórnarkonur í Siglufjarðardeild
 
Fyrir námskeiðið var þeim sem skráðu sig til liðsauka hjá Siglufjarðardeild nú í haust, kynnt starfsemi Rauða krossins.

23. nóv. 2009 : Að hafa eitthvað á prjónunum

Að hafa eitthvað á prjónunum getur svo sannarlega átt við um hana Mörtu Jóhannsdóttur sem um árabil hefur fært Rauða krossinum ýmsan prjónavarning. Nýverið kom hún færandi hendi með peysur, vesti og skokka sem hún hefur verið að prjóna á þessu ári. 
Svo skemmtilega vildi til að Marta hitti einmitt á hóp nemenda úr Giljaskóla sem voru að kynna sér handavinnuverkefnið Föt sem framlag þótti þeim mikið til koma um dugnað Mörtu og glæsileika flíkanna.
Þessa dagana  er verið að undirbúa sendingu sem áætlað er að fari í byrjun desember til Hvíta Rússlands þannig að vonandi á prjónið hennar Mörtu eftir að hlýja einhverjum um komandi jól. Sending þessi inniheldur annars, ásamt ýmsu  öðru, tvö þúsund og fimmhundruð ungbarnapakka sem sjálfboðaliðar  Rauða kross Íslands hafa verið að vinna að í verkefninu  Föt sem framlag.

 

 

16. nóv. 2009 : Nóg að gera í " Föt sem framlag "

Verkefnið föt sem framlag er gamalt og gott verkefni sem undanfarin ár hefur gengið í endurnýjun lífdaga.  Verkefnið er svokallað hanyrðaverkefni sem felst í því að útbúnir eru fatapakkar fyrir ungabörn  og  ýmiskonar prjónavörur á allan aldur.
Ungbarnapakkarnir hafa fyrst og fremst verið sendir til Afríku en nú hefur borist beiðni um að senda 2.500 pakka til Hvíta Rússlands. Sjálfboðaliðarnir sem vinna að þessu verkefni hafa því haft nóg fyrir stafni og keppast hreinlega við að framleiða upp í þessa stóru pöntun..  Fyrir þá sem hafa áhuga á að taka þátt í þessu verkefni eða vilja kynna sér það betur er um að gera að hafa samband  eða líta við í húsnæði Rauða krossins.
 

16. nóv. 2009 : Fjöldahjálparstjóranámskeið fyrir norðan

Námskeið fyrir fjöldahjálparstjóra var haldið í Víðihlíð í Húnaþingi vestra um síðustu helgi. Sóttu það fimmtán manns frá Rauða kross deildunum þremur í Húnavatnssýslum.
 
Meirihluti þátttakenda var að sækja slíkt námskeið í fyrsta sinn en aðrir að endurnýja réttindi sín sem fjöldahjálparstjórar. Nýir sjálfboðaliðar eru sérstaklega boðnir velkomnir í hópinn.
 
Námskeiðið samanstóð af fyrirlestrum, verklegum æfingum og umræðum. Æfðu þátttakendur sig í viðbrögðum við hópslysi og opnun fjöldahjálparstöðvar í kjölfar hamfara.

11. nóv. 2009 : Sjálfboðaliðar sækja deildanámskeið

Haldið var deildanámskeið í húsnæði Akureyrardeildar á mánudaginn. Þátttakendur voru alls 15 sem komu frá þremur deildum Rauða krossins, Akureyrardeild, Dalvíkurdeild og Ólafsfjarðardeild. 

11. nóv. 2009 : Sjálfboðaliðar sækja deildanámskeið

Haldið var deildanámskeið í húsnæði Akureyrardeildar á mánudaginn. Þátttakendur voru alls 15 sem komu frá þremur deildum Rauða krossins, Akureyrardeild, Dalvíkurdeild og Ólafsfjarðardeild. 

9. nóv. 2009 : Rauði krossinn tók þátt í Multi Musica

Skagafjarðardeild Rauða krossins tók þátt í alþjóðlegri hátíð í Miðgarði. Deildin sá um matarsmakk í hléi á réttum frá ýmsum heimshornum. Markmiðið með að taka þátt í skemmtuninni var að vekja athygli á Rauða krossinum og hlutverki hans í að styðja við innflytjendur.

Fólk af erlendu bergi brotið sem býr í Skagafirði var fengið til liðs og töfraði það fram fjölbreytta rétti af ýmsum toga. Virk þátttaka útlendinga í atburði sem þessum getur slegið á fordóma og stuðlað að gagnkvæmri aðlögun auk þess sem samskipti af þessu tagi er dýrmæt fyrir sálina! Sólrún Harðardóttir sem situr í stjórn Skagafjarðardeildar ávarpaði samkomuna og skipulagði „hléið".

3. nóv. 2009 : Fyrsti fundur nýkjörins svæðisráðs

Nýkjörið svæðisráð deilda á Norðurlandi hélt sinn fyrsta fund í síðustu viku. Á síðasta aðalfundi var samþykkt að fjölga fulltrúum úr þremur í fimm.  Svæðinu er skipti í vestur- og austursvæði sem eiga hvort um sig tvo fulltrúa og Akureyrardeild á fastan einn fulltrúa.

Nokkrir nýliðar eru í svæðisráðinu og var þeim kynnt verkefnastaða svæðisráðsins auk þess sem rædd var framkvæmd verkefna. Fundir svæðisráðs eru alla jafna haldnir í gegnum síma en það þótti við hæfi að fulltrúar kæmu saman á fyrsta fundi til að sjá framan í hvort annað svo auðveldara verði að tengja andlit við röddina á símafundum í framtíðinni.