22. mar. 2010 : Safnað fyrir Chile.

Nemendur í 4. bekk í Brekkuskóla ákváðu eftir jarðskálftana í Chile í lok febrúar sl. að hefja söfnun til að styðja við hjálparstarfið sem þar fer fram.  Hugmyndin var að gefa krökkunum í skólanum tækifæri til að koma með klink að heiman og leggja í söfnunina.  Kynntu nemendur hugmynd sína í öllum bekkjum skólans og var hugmyndin einnig kynnt fyrir foreldrum skólabarna.  Söfnunarbaukar voru síðan settir upp  og gátu nemendur, starfsfólk og aðrir gefið klink í söfnunina.   Með þessu framtaki söfnuðu krakkarnir  rúmlega 30 þúsund krónum ( 30.002,- ) sem renna eins og áður segir til hjálparstarfsins í Chile.
Þetta er dæmi um verkefni sem hægt er að nota til ýmiskonar fræðslu í skólanum og ekki skemmir það fyrir að í bekk krakkana er ung stúlka  ættuð  frá Chile sem eflaust getur sagt þeim sitt og hvað frá landinu.
 

18. mar. 2010 : Erindi Hlínar 2010

Í tengslum við Aðalfund deildarinnar sem haldinn var nýverið flutti Hlín Baldvinsdóttir erindi um ferð sína til Haítí sem sendifulltrúi Rauða krossins.  Þar urðu eins og allir vita gríðarlegar náttúruhamfarir,  en engu að síður ar afar fróðlegt að fá að heyra lifandi frásögn af starfinu frá einhverjum sem var á staðnum. Lýsing á þeim aðstæðum sem hjálparlið gengur inn í og hvernig það tekst á við þau verkefni sem  þarf að vinna. Hlín var fyrst sendifulltrúa Rauða kross Íslands á staðinn og vann í sérfræðingateymi Alþjóða Rauða krossins sem metur þörf á aðstoð fyrstu vikur og mánuði eftir hamfarirnar.

 

 

17. mar. 2010 : Skyndihjálpin hans Kalla kemur að góðum notum

Erla Hlín skrifar á bloggsíðu sinni um það hvernig skyndihjálparnámskeið Rauða krossins hjálpaði henni í atviki sem upp kom við sundlaug í Namibíu. Hún þakkar það góðri kennslu Karls Lúðvíkssonar leiðbeinanda í skyndihjálp að hún hafði engu gleymt.


17. mar. 2010 : Nær aldarfjórðungs stjórnarsetu lokið

Almennt telst það ekki til tíðinda þótt mannaskipti verði í stjórnum deilda Rauða kross Íslands en á  nýloknum aðalfundi Húsavíkurdeildar lét Magnús Þorvaldsson af stjórnarssetu eftir nær aldarfjórðungs samfellda og afar farsæla setu sem gjaldkeri í stjórn deildarinnar. 

Í stuttri tölu drap Magnús á helstu breytingar sem orðið hafa á starfi deildarinnar á þessum tíma en óhætt er að segja að þær hafa verið verulegar frá árinu 1986 þegar Magnús settist í stjórn.

Magnús mun þó ekki skilja við Rauða krossinn með öllu því hann mun áfram sinna neyðarvarnarmálum deildarinnar auk þess að vera skoðunarmaður reikninga.

4. mar. 2010 : Skyndihjálparnámskeið hefst 15. mars

Námskeið í almennri skyndihjálp ( 16 kennslustundir )  verður haldið í húsnæði Rauða krossins, Viðjulundi 2 og hefst námskeiðið mánudaginn 15. mars 
 

Staður:    Viðjulundur 2
Stund:     15. 16.  22.. og 23. mars  kl. 19:30 – 22:30
Verð:        8.500,-

Skráning

Nánari upplýsingar og skráning er í síma 461 2374 og  [email protected]

1. mar. 2010 : Börnin á Álfaborg safna fyrir Haítí

Það er fátt skemmtilegra en að hitta börnin í leikskólunum og spjalla við þau um ýmislegt sem þeim dettur í hug. Þau hafa eins og flestir fylgst með heimsfréttunum og eru svo sannarlega tilbúin að hjálpa ef þau geta.

Þannig var það hjá börnunum í leikskólanum Álfaborg á Svalbarðsströnd sem á Degi leikskólans opnuðu listsýningu í Ráðhúsi Svalbarðsstrandar. Sýningin sem var sölusýning fluttist síðan viku seinna í matsal Kjarnafæðis og var þar í viku.

Tilefni sýningarinnar var að vekja athygli á starfi leikskólans en jafnframt að láta gott af sér leiða og safna fé fyrir börn sem urðu illa úti í jarðskjálftanum á Haítí í janúar.