26. nóv. 2010 : Þjóðadagur Þingeyinga á laugardaginn

Húsavíkurdeild Rauða krossins tekur þátt í Þjóðadegi Þingeyinga sem haldinn verður næstkomandi laugardag á Húsavík. Nokkrir Þingeyingar af erlendum uppruna munu kynna matarvenjur og siði, þar með talda jólasiði, frá löndum sínum.

Þjóðadagur í Þingeyjarsýslum var fyrst haldinn haustið 2008 á vegum deildarinnar og þótti hann takast frábærlega og óhætt að segja að  matarvenjur og siðir Þingeyinga eru í raun mun fjölbreyttari en ætla mætti við fyrstu sýn.

Hátíðin fer fram á milli 14 og 16 í sal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 á Húsavík. Allir eru hjartanlega velkomnir og aðgangur er ókeypis.

24. nóv. 2010 : Laut 10 ára

Þann 8. desember árið 2000 var Laut athvarf fyrir fólk með geðraskanir opnað í Þingvallastræti 32 með formlegum hætti.  Lautinni hefur á þessum tíma fest sig í sessi sem fastur punktur í lífi margra. Hún hefur  vaxið á margan hátt m.a. flutt í nýtt húsnæði að Brekkugötu 34 þar sem hún er  staðsett í dag.
Laut fagnar nú tíu ára afmæli sínu og bíður því  öllum sem vilja fagna með sér á þessum tímamótum  í heimsókn föstudaginn 10. desember n.k. milli kl. 14 og 16.
 

11. nóv. 2010 : Eins og í fínustu fermingarveislu!

Súpur, súrkál, síld, kjötbollur, kálbögglar, pylsur, tertur og sætabrauð að pólskum sið voru hluti af ljúffengum réttum  sem gestum og gangandi bauðst til þess að gæða sér á í húsnæði Rauða krossins á Húsavík síðastliðinn laugardag.

Kynningin var hluti af starfsemi Rauða krossins sem felst í því að auka þekkingu fólks á mismunandi þjóðum og menningu þeirra.

Á milli 70 og 80 manns mættu til að bragða á pólskum réttum sem Daria M, Húsvíkingur, bar hitann og þungann af að undirbúa. Réttirnir féllu svo sannarlega vel í kramið. Það lýsir sér kannski best í ummælum eins gestsins sem sagði: „Þetta er bara eins og í fínustu fermingarveislu.“ Það er kannski ekki að undra, enda Daria lærður kokkur frá Póllandi.

11. nóv. 2010 : Við eldumst öll

Við eldumst öll er yfirskrift erindis sem Erlingur Jóhannsson flutti á fundi heimsóknarvina Akureyrardeildarinnar. Erindið fjallaði um rannsókn sem hann stóð fyrir á líkams- og heilsurækt aldraðra. Rannsóknin sýndi fram á að með reglubundinni og skipulagðri þol- og styrktarþjálfun geta aldraðir bætt heilsu sína og lífsgæði umtalsvert. *

Erlingur, sem er deildarforseti íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar Háskóla Íslands,  lýsti því hvernig rannsóknin var gerð og fór yfir helstu niðurstöður hennar. Mjög svo áhugaverð rannsókn og efni sem í raun á erindi við alla aldurshópa.

Heimsóknarvinir Rauða krossins heimsækja aldraða og sjúka á heimili sín hvort heldur er út í bæ eða inn á stofnunum.

8. nóv. 2010 : Jólafatasöfnun

Rauði krossinn mun líkt og fyrir undanfarin jól safna jólafötum og  –skóm fyrir börn frá 0 -18 ára. 
Tekið verður á móti fötunum í húsnæði Rauða krossins en Mæðrastyrksnefnd mun síðan sjá um úthlutun á  fötunum í byrjun desember.

Opnunartími Rauða krossins kl. 9 – 16 virka daga.

4. nóv. 2010 : Heimsókn frá Flúðum

Elstu börnin á leikskólanum Flúðum komu í heimsókn í Rauða krossin í morgun og eins og venjulega þá höfðu þau ýmislegt til málanna að leggja.  Þau fengu auðvitað að heyra af honum Henry sem “fattaði upp á” Rauða krossinum. Sá þótti þeim  nú með skrítið skegg, og voru alls ekki á því að það myndi klæða pabba vel, hvað þá mömmu. Hjálpfús, Rauða kross strákur lék auðvitað stórt hlutverk líka. Hann fræddi þau um grundvallarmarkmið Rauða krossins og svo var auðvitað lituð mynd af honum í öllum regnbogans litum. Sum höfðu komið til og jafnvel búið í útlöndum, sum farið í sjúkrabíl og sum voru vel að sér í flestu því sem bar á góma.   Fastlega má þó gera ráð fyrir því að það sem stendur upp úr frá þessari heimsókn er að þau fengu djús og kex !
Skemmtilegir krakkar og alltaf gaman að fá slíkar heimsóknir.

Sjá má myndir frá heimsókninni  með því að smella á lesa meira