24. jan. 2011 : Námskeið fyrir heimsóknavini með hunda

Haldið var námskeið sl. laugardag í húsnæði  Akureyrardeildar fyrir þá heimsóknavini sem vilja heimsækja með hunda. Þetta var annað námskeið þessa eðlis sem haldið hefur verið á Norðurlandi. Þátttakendur komu frá þremur deildum á svæðinu þ.e. Akureyrar-Skagafjarðar- og Húsavíkurdeild og voru fulltrúar frá síðastnefndu deildinni að sækja svona námskeið í fyrsta sinni.
 Fyrst fluttu þær Gunnhildur Jakobsdóttir og Brynja Tomer erindi um hjálparhunda fyrir hundaeigendurna en  að því búnu flutti námskeiðsfólk sig yfir í dvalarheimilið Hlíð þar sem fram fór úttekt á hundunum.
 Alls voru átta hundar teknir út og hlutu þeir allir náð fyrir augum leiðbeinenda með mismunandi áherslum á hvers konar heimsóknir hentuðu hverjum og einum.
Er nú spennandi að fylgjast með framvindu verkefnisins og sjá hvernig þessari framboðsaukningu á svæðinu verður tekið.
 

 

 

18. jan. 2011 : Æfing og námskeið í neyðarvörnum á Norðurlandi

Húsavíkurdeild Rauða krossins og almannavarnir Þingeyinga stóðu fyrir sameiginlegri skrifborðsæfingu á Húsavík á föstudaginn. Þátttakendur voru um fjörutíu talsins og komu frá öllum viðbragðsaðilum á starfssvæðinu auk ráðgjafa frá landsskrifstofu Rauða krossins og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Æfð voru viðbrögð við rútuslysi á Melrakkasléttu. Þátttakendum var skipt í tvo hópa. Annar hópurinn tók að sér aðgerðastjórnun en hún felur í sér samhæfingu á öllum aðgerðum í héraði en hinn hópurinn tók að sér vettvangsstjórnun sem snýst um stjórnun aðgerða á slysstað.