16. feb. 2011 : Leyfum þögninni að tala.

Á fundi heimsóknarvina í gær kom hún Jórunn Elídóttir og flutti fróðlegt erindi  um samtalstækni.   Samtalstækni snýst í raun um þrennt. Að hlusta af áhuga, að spyrja réttra spurninga á réttan hátt og síðast en ekki síst samkennd og virðingu.
Í sjálfu sér eitthvað sem fólk veit en gleymir kannski stundum í hraða nútímasamfélagsins.

Að þora að leyfa þögninni að tala eins og hún segir er einnig mjög mikilvægt. Hver kannast ekki við þá vandræðalegu tilfinningu að sitja með einhverjum í þögn og finnast maður þurfa að segja eitthvað.   Það er einmitt og ekki síst góð ábending fyrir þennan áheyrendahóp sem sum hver eru að heimsækja fólk með minnissjúkdóma.  Fólk sem í raun lifir í núinu og er ekki vel fært um að hafa frumkvæði að samræðum.
Sannarlega fróðlegt erindi.

14. feb. 2011 : Skyndihjálparhópur æfir sig

Skyndihjálprhópur deildanna á Norðurlandi kom saman á Narfastöðum í Reykjadal sl. föstudag og dvaldi þar við æfingar fram á miðjan dag á laugardag. Fjórir nýir aðilar bættust í hópinn og eru þau boðin hjartanlega velkomin. 
 
Á föstudagskvöldinu var farið í sundlaugina á Laugum þar sem að æfð var björgun frá drukknun og tóku nokkrir starfsmenn laugarinnar þátt í því með hópnum.
 
Á laugardagsmorguninn var æfð björgun úr bílslysi. Komið hafði verði fyrir bílflaki  í skurði þarna í nágrenninu og spreyttu þátttakendur sig á að ná þremur slösuðum farþegum út úr flakinu og koma þeim fyrir í sjúkrabíl.
 

7. feb. 2011 : Saumavalið afhendir afrakstur vetrarins

Nemendur í  saumavali í  grunnskólunum á Akureyri komu í dag og afhentu afrakstur af vinnu sinni á haustönn.  Saumavalið hefur verið sett þannig upp að nemendur vinna að hluta til að verkefni sem kallast “ Föt sem framlag “ og er Rauðakross verkefni og hins vegar að saumaskap sem þeir velja í samráði við kennara.  Þrjátíu og fimm nemendur eru í saumavalinu að þessu sinni og afraksturinn; teppi, buxur, bolir, húfur ofl. sem nýta má í Rauðakross verkefnið því þó nokkur. Segja má að áfanginn sé í senn kennsla í saumaskap og  samfélags- og lífsleiknifræðsla. Auk þess sem nemendur hafa getað valið sér flýkur og efni til að sauma upp úr í fataflokkun Rauða krossins  og  því verkenfið ágætlega umhverfisvænt.
Fyrir þá sem vilja kynna sér verkefnið “ Föt sem framlag “  má benda á að sjálfboðaliðar  hittast á mánudags og þriðjudagsmorgnum í húsnæði Rauða krossins.