23. mar. 2011 : Stórmót í Lautinni

Tuttugu þátttakendur skráðu sig til leiks á hraðskákmóti í Laut, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir á Akureyri, þar sem Rauði kross Íslands kemur m.a. að rekstrinum. Mótið var haldið kl. 17:30 í gær enda hafði Goðamaðurinn og prestur þeirra Húsvíkinga, Sighvatur Karlsson, boðað komu sína og efnilegra pilta um það leytið.

Lautargengið hafði fengið þá Smára Ólafsson frá Skákfélagi Akureyrar og Arnar Valgeirsson frá Skákfélagi Vinjar til samstarfs og úr varð stórskemmtilegt mót sem var öllum sem að því komu til háborinnar fyrirmyndar!

23. mar. 2011 : Fann pening á götunni sem rennur til barna á Haítí

Halldór Tumi Ólason, níu ára strákur, mætti á aðalfund Húsavíkurdeildar og afhenti Kristjáni Sturlusyni framkvæmdastjóra Rauða kross Íslands 2.500 krónur sem hann vill að renni til hjálparstarfsins á Haítí.

Hugmyndina fékk Halldór Tumi þegar hann fann 500 krónur á götunni. Þegar hann sýndi foreldrum sínum fjársjóðinn komu þau sér saman um að fjármagnið yrði látið renna til Rauða krossins eftir að hafa bætt við upphæðina.

Kristján sagði Halldóri Tuma að hann væri nýkominn frá Haítí. Þar hefði hann hitt krakka sem ekki gætu farið í skóla. Aðeins um helmingur barna sem búa á Haítí hafa möguleika á að læra. Þessi peningur yrði notaður fyrir börn sem misstu allt sitt í jarðskjálftanum.

21. mar. 2011 : Skákmót í Laut - þriðjudag 22. mars

Þriðjudaginn 22. mars kl.17:30 verður skákmót í Lautinni.  Von er á góðum gestum frá Húsavík og allir eru hjartanlega velkomnir.

Tefldar verða 6 umferðir með 7 mínútna umhugsunartíma og allir þátttakendur fá bókavinning. Skáksamband Íslands hefur gefið vinninga. Boðið verður upp á veitingar í hléi.  Fulltrúar Skákfélags Akureyrar og Skákfélags Vinjar sjá um mótið.

Skráning á staðnum en má gjarna hringja í 462-6632 og tilkynna þátttöku.

8. mar. 2011 : Úti í bæ á Öskudag...

Það er löng hefð fyrir því að krakkar á Akureyri heimsæki fyrirtæki og verslanir á Öskudag til að syngja í skiptum fyrir eitthvert góðgæti.  Afar, ömmur, bófar, löggur og ýmsar geimhetjur eru meðal þeirra sem heimsóttu Akureyrardeild og glöddu þar fólk með söng. Sjá má myndir af nokkrum þessara hópa hér.