Börnin á Álfaborg safna fyrir Haítí

1. mar. 2010

Það er fátt skemmtilegra en að hitta börnin í leikskólunum og spjalla við þau um ýmislegt sem þeim dettur í hug. Þau hafa eins og flestir fylgst með heimsfréttunum og eru svo sannarlega tilbúin að hjálpa ef þau geta.

Þannig var það hjá börnunum í leikskólanum Álfaborg á Svalbarðsströnd sem á Degi leikskólans opnuðu listsýningu í Ráðhúsi Svalbarðsstrandar. Sýningin sem var sölusýning fluttist síðan viku seinna í matsal Kjarnafæðis og var þar í viku.

Tilefni sýningarinnar var að vekja athygli á starfi leikskólans en jafnframt að láta gott af sér leiða og safna fé fyrir börn sem urðu illa úti í jarðskjálftanum á Haítí í janúar.

Sýninguna sóttu vel á annað hundrað manns og söfnuðu börnin á Álfaborg með þessu framtaki sínu hvorki meira né minna en 112.832 krónum. Inni í þeirri upphæð er framlag Svalbarðsstrandarhrepps sem nemur 100 kr. á hvern íbúa hreppsins.  

Síðasta föstudag var síðasti dagur svo kallaðrar góðgerðarviku sem staðið hefur yfir í leikskólanum og þótti því við hæfi að afhenda afrakstur söfnunarinnar. Af því tilefni var fullrúum Rauða krossins boðið í heimsókn og tók Jón Knutsen formaður Akureyrardeildar við peningunum.

Börnunum og starfsfólki á Álfaborg sem og öllum þeim sem lögðu þeim lið eru hér með færðar bestu þakkir fyrir.