Nær aldarfjórðungs stjórnarsetu lokið

17. mar. 2010

Almennt telst það ekki til tíðinda þótt mannaskipti verði í stjórnum deilda Rauða kross Íslands en á  nýloknum aðalfundi Húsavíkurdeildar lét Magnús Þorvaldsson af stjórnarssetu eftir nær aldarfjórðungs samfellda og afar farsæla setu sem gjaldkeri í stjórn deildarinnar. 

Í stuttri tölu drap Magnús á helstu breytingar sem orðið hafa á starfi deildarinnar á þessum tíma en óhætt er að segja að þær hafa verið verulegar frá árinu 1986 þegar Magnús settist í stjórn.

Magnús mun þó ekki skilja við Rauða krossinn með öllu því hann mun áfram sinna neyðarvarnarmálum deildarinnar auk þess að vera skoðunarmaður reikninga. 

Á meðfylgjandi mynd færir Ingólfur Freysson formaður Húsavíkurdeildar, Magnúsi (t.v.) blómvönd ásamt alúðarþökkum fyrir afar farsæl störf í þágu Rauða kross Íslands, Húsavíkurdeildar og nágrennis. 

Ný stjórn Húsavíkurdeildar, sem samanlagt nær þó ekki að jafna stjórnartíma Magnúsar, eru skipuð eftirtöldum aðilum: Ingólfur Freysson, formaður, Erla Bjarnadóttir gjaldkeri, Unnsteinn Ingason ritari, Benedikt Kristjánsson og Guðlaug Gísladóttir.