Flóamarkaður á Laugum til styrktar Haítí

11. maí 2010

Nemendur Framhaldsskólans á Laugum í Reykjadal tóku sig saman og héldu flóamarkað á laugardaginn til styrktar Rauða krossinum og hjálparstarfinu á Haítí.

„Fyrsta klukkutímann vorum við úti undir beru lofti en þurftum að flýja vind rétt fyrir klukkan þrjú, þegar ýmislegt var farið að fjúka um svæðið. Stemningin var skemmtilega létt, þar sem fólk var glatt, hlustaði á lifandi tónlist, gæddi sér á grilluðum bönunum og skoðaði það sem var í boði. Sumir fóru inn, þar sem hægt var að horfa á heimildamyndir um Haiti,“ segir Júlía Sigurðardóttir á heimasíðu skólans.

Það söfnuðust rétt um 35.000 krónur, sem og poki fullur af regnfötum fyrir Haítíbúa, þar sem regntímabil er að hefjast þar. Einnig voru rúmlega 50 leikföng handgerð af börnunum og unglingunum úr Litlulaugaskóla og Framhaldsskólanum á Laugum fyrir börnin á Haiti.

Þau föt sem voru ekki seld munu verða send í fatasöfnun Rauða krossins.

Júlía þakkar öllum sem komu að markaðnum - bæði við undirbúning og svo eiginlega þátttöku. Rauði krossinn þakkar nemendum skólanna fyrir frábært framtak og hlýhug.