Hlutverk stjórna félagasamtaka á námskeiði deilda á Norðurlandi

25. maí 2010

Deildanámskeið var haldið á Sauðárkróki í síðustu viku og sóttu það átján manns frá fimm deildum á Norðurlandi. Leiðbeinandi var Dr. Ómar Kristmundsson fyrrverandi formaður Rauða kross Íslands.
 
Helstu áherslur Ómars á námskeiðinu voru meginhlutverk stjórna félagasamtaka þ.e. stefnumörkun, að marka framtíðaráherslur starfsins og fylgjast með að þeim sé framfylgt. Eins fór hann yfir helstu leiðir sem stjórnir geta farið til árangursríkari stefnumörkunar, mikilvægi árangursmats, hvernig auka megi framlag og virkni einstakra stjórnarmanna og ábyrgð stjórnarmanna svo eitthvað sé nefnt.
 
Þátttakendur voru mjög ánægðir með námskeiðið og sú aðferðafræði sem Ómar byggir á mun án efa nýtast þeim við að móta starf deildanna.

Í lok námskeiðs afhenti Ómar svæðisfulltrúa eitt eintak fyrir hverja deild á Norðurlandi af bók þeirra Ómars og Steinunnar Hrafnsdóttur um stjórnun og rekstur félagasamtaka og fær hann bestu þakkir fyrir þessa glæsilegu gjöf.