Fjölbreytt dagskrá á sumarbúðum Rauða krossins

16. júl. 2010

Sumarbúðir Rauða krossins fyrir fatlaða einstaklinga sem haldnar eru á Löngumýri og í Stykkishólmi ljúka sínu þriðja tímabili í dag. Sumarbúðirnar eru byggðar upp á skemmtun, fræðslu og afþreyingu þar sem allir fá að njóta sín miðað við fötun hvers og eins.

Dagskráin er fjölbreytt. Auk skoðunarferða er farið á hestbak, í flúðasiglingar og sjóstangaveiði, golf, júdó, leiki og kennd er skyndihjálp, auk fræðslu um Rauða krossinn. Flesta daga er farið í sund og kvöldvaka með þátttöku sumarbúðagesta hvert kvöld.

Það eru tólf ár síðan farið var af stað með sumarbúðirnar á Löngumýri en sex í Stykkishólmi. Karl Lúðvíksson hefur verið sumarbúðastjóri á Löngumýri frá upphafi en Gunnar Svanlaugsson er við stjórnvölinn í Stykkishólmi. Fullbókað er á öll tímabilin en um 80 þátttakendur munu sækja sumarbúðirnar í sumar. Rauða kross deildir á Norðurlandi, Austurlandi og höfuðborgarsvæðis koma að rekstrinum.

 

Þátttakendur, starfsmenn og sjálfboðaliðar sem komu að sumarbúðunum á Löngumýri í þessari viku.