Ólafsfjarðardeild - starfið á árinu

28. feb. 2012

Stjórn félagsins 2011 skipaði þannig: Formaður Helga Stefánsdóttir, ritari Auður Eggertsdóttir, gjaldkeri Birna Björnsdóttir, meðstjórnandi Rut María Pálsdóttir, varamenn Snjólaug Kristinsdóttir, Sigríður Munda Jónsdóttir og Rúnar Gunnarsson. 14 fundir voru haldnir á árinu.

Á síðastliðnu ári hefur verið nóg að gera hjá okkur við ýmiss verkefni.

Fatasöfnun og Föt sem framlög eru okkar stærstu verkefni. Ansi oft þurfti að tæma fatagáminn og sendum við yfirleitt 3-4 bretti á mánuði. Ungbarnapökkunin gengur vel og einnig byrjuðum við að safna fötum fyrir 2-12 ára.

Neyðarbeiðni og Neyðarvarnir
Deildin hefur svarað beiðnum eins og undanfarin ár. Beiðni kom frá félagsmálafulltrúa Fjallabyggðar upp á jólaaðstoð og voru 13 manns á listanum og samþykktum við alla. Styrkurinn var þannig að við fengum kort frá Bónusi og Samkaupum/Úrvali og var ákveðið að hann yrði 10.000 á fullorðna og 5.000 á barn.

Rútuslysaæfing var haldin í október í Húnavatnssýslunni og fóru Rut og Helga á hana. Voru þær ánægðar að hafa farið og séð hvernig svona æfing virkar.

Fjöldahjálparstöðin
Í desember fóru nokkrar úr stjórn og skoðuðu húsnæðið þar sem að fjöldahjálparstöðin er til staðar. Í ljósi þess að það hafa orðið breytingar á húsnæðinu höfum við sent bréf til Jóns Brynjars Birgissonar um að það verði að færa staðsetningu fjöldahjálparstöðvarinnar í Grunnskóla Fjallabyggðar. Jón Brynjar hefur verið að leiðbeina okkur hvernig fara á að færa hana. Þetta mál er í vinnslu.

Fundir
Í mars var haldinn formannafundur í Reykjavík og fór formaður á hann. Ég var mjög ánægð að hafa farið því það er nauðsynlegt að fylgjast með gangi mála.
Fjórar í stjórn fóru á deildarfund sem haldinn var á Akureyri og var mjög fróðlegur að okkar mati.
Aðalfundur var svo haldinn í Reykjanesbæ og fóru Rut María, Auður og Helga. Allar voru sammála um að það yrði alltaf einhver frá okkar deild að fara árlega, þessi fundir eru mikilvægir fyrir stjórnir deilda.

Fréttabréf var sent í öll hús í byrjun júní þar sem  minnt var á starfsemi deildarinnar. 

Ein stelpa fór í sumarbúðir Urkí sem var haldið í Alviðru og kom hún heim alsæl og gat hugsað sér að fara aftur næsta sumar.

Námskeið
„Slys á börnum“, námskeið fyrir börn í 6. bekk, var vel sótt alls skráðu sig 18 börn. Voru það hjúkrunarfræðingarnir Rut María og Elín sem sáu um námskeiðið.
Svæðisráðsfundur var haldinn á Akureyri í lok september og fóru 3 fulltrúar frá okkur

Leiðbeinendanámskeið í skyndihjálp var haldið í Reykjavík í september og tók Rúnar Gunnarsson þátt fyrir hönd Ólafsfjarðardeildar. Og mun hann sjá um að halda skyndihjálparnámskeið fyrir deildina.

Fimmtugsafmæli
Fyrir tilviljun uppgötvaðist að deildin yrði 50 ára 24. september og var strax ákveðið að halda upp á daginn. Send voru út boðskort til deilda í nágrenninu sem og til félagsmanna. Ákveðið var að hringja í nokkra félagsmenn og biðja um að gefa tertur, það gekk eins og í sögu allir tilbúnir til að aðstoða.  Deildin gaf út bækling þar sem ýmsar fréttir komu fram. Eins gáfum  við út segul þar sem að kom fram hvenær deildin var stofnuð og grundvallarhugsjónir Rauða kross Íslands.

Ákveðið var að heiðra  fyrsta formann félagsins, Guðlaugu Gunnlaugsdóttur en hún var búin að starfa í mörg ár fyrir félagið og var jafnframt fyrsta konan til að gegna stöðu formanns innar Rauða kross Íslands. Nokkrir gamlir félagsmenn fengu afhent blóm með þakklæti fyrir vel unnin störf. Afmælisboðið var vel sótt og tókst mjög vel.

Rauðakrossvikan í október
 Vorum við með borð í Samkaup/Úrval þar sem ýmissa grasa kenndi svo sem ungbarnapakki, skyndihjálpartaska og ýmsir bæklingar. Kynningin gekk vonum framar og fengum við 33 nýja sjálfboðaliða til liðs við okkur. Þarna tókst okkur að vera sýnileg en það er einmitt það sem vantar að Rauði krossinn sé sýnilegri.

Slysið
16. nóvember varð banaslys á Siglufirði og var ákveðið í samráði við áfallateymi Rauðakrossdeildar Akureyrar að bjóða upp á opið hús þar sem bæjarbúar gætu komið saman og rætt við fagfólk. Þeir sem mættu voru mjög þakklátir fyrir að fá þennan stuðning.

Húsnæðismál
Það kom að þeim tímapunkti að herbergið sem við leigðum varð allt of lítið fyrir starfsemi okkar.  Ákveðið var að leigja húsnæði að Aðalgötu 1 sem er neðri hæð. 5. desember var svo dótið flutt og áttum við erfitt að skilja hvernig allt þetta dót hafði komist fyrir í þessu eina herbergi. Síðan þá hefur deildin verið að sanka að sér allskyns innbúi og hefur það gengið mjög vel.

Deildin sendi út jólakort til félagsmanna og ýmissa annarra velunnara.

Mig langar til þess að þakka félögum mínum fyrir góða samvinnu á árinu,

Að lokum langar mig að þakka Guðnýu Björnsdóttur fyrir gott samstarf á liðnu ári.  Hún hefur alltaf tekið vel á móti okkur og hjálpað okkur með  það sem við höfum lent í vandræðum með.

Helga Stefánsdóttir
formaður Ólafsfjarðardeildar