Eins og í fínustu fermingarveislu!

11. nóv. 2010

Súpur, súrkál, síld, kjötbollur, kálbögglar, pylsur, tertur og sætabrauð að pólskum sið voru hluti af ljúffengum réttum  sem gestum og gangandi bauðst til þess að gæða sér á í húsnæði Rauða krossins á Húsavík síðastliðinn laugardag.

Kynningin var hluti af starfsemi Rauða krossins sem felst í því að auka þekkingu fólks á mismunandi þjóðum og menningu þeirra.

Á milli 70 og 80 manns mættu til að bragða á pólskum réttum sem Daria M, Húsvíkingur, bar hitann og þungann af að undirbúa. Réttirnir féllu svo sannarlega vel í kramið. Það lýsir sér kannski best í ummælum eins gestsins sem sagði: „Þetta er bara eins og í fínustu fermingarveislu.“ Það er kannski ekki að undra, enda Daria lærður kokkur frá Póllandi.

Það var mál manna að svona uppákomur auðguðu líf okkar og að þetta væri góð landkynning fyrir Pólland. Húsavíkurdeild Rauða krossins þakkar Þingeyingum fyrir góða þátttöku og Dariu M fyrir frábæra frammistöðu. Fyrirtækin sem gáfu hráefni til matargerðarinnar; Heimabakarí og Viðbót kjötvinnsla á Húsavík og KjötPól í Kópavogi áttu einnig sinn þátt í að gera veisluna svo glæsilega.