Hlýjar hendur Elínborgar Gunnarsdóttur

21. sep. 2010

Í síðastu viku voru þau Símon Páll Steinsson formaður Dalvíkurdeildar Rauða krossins og Guðný H. Björnsdóttir svæðisfulltrúi boðuð í Dalbæ, heimili aldraðra á Dalvík, til að taka við framlagi til verkefnisins „Föt sem framlag".

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Rauða krossinum berst höfðingleg gjöf af þessu tagi frá hlýjum höndum  kvenna á heimilinu. Að þessu sinn ber hins vega dálítið nýrra við því þarna er nær eingöngu verk einnar konu, Elínborgar Gunnarsdóttur.

Um er að ræða 186 teppi og þar af hafði Elínborg prjónað 176. Hún prjónaði teppin á prjónavél sem komin er vel yfir fimmtugt og þó að handverkskonunni sé mikið farið að daprast sjón og vélin orðin gömul kemur það sannarlega ekki að sök.

Með bros á vör og léttleika í fasi sagði Elínborg að sér hefði áskotnast allt þetta garn og hún hafi blátt áfram orðið að láta eitthvað verða úr þessu. Þau á dvalarheimilinu hefðu verið svo góð og elskuleg að skapa henni aðstöðu til þess að af þessu gæti orðið.
 
Guðný svæðisfulltrúi þakkaði fyrir þetta góða framlag, sem hún sagði að kæmi sér sérstaklega vel, þar sem að í næsta mánuði færi út gámur til Hvíta Rússlands og sérstaklega hefði verið óskað eftir hlýjum fatnaði í ungbarnapakkana.

Símon Páll Steinsson formaður Dalvíkurdeildar Rauða krossins þakkar Elínborgu rausnarlega gjöf.