Fann pening á götunni sem rennur til barna á Haítí

23. mar. 2011

Halldór Tumi Ólason, níu ára strákur, mætti á aðalfund Húsavíkurdeildar og afhenti Kristjáni Sturlusyni framkvæmdastjóra Rauða kross Íslands 2.500 krónur sem hann vill að renni til hjálparstarfsins á Haítí.

Hugmyndina fékk Halldór Tumi þegar hann fann 500 krónur á götunni. Þegar hann sýndi foreldrum sínum fjársjóðinn komu þau sér saman um að fjármagnið yrði látið renna til Rauða krossins eftir að hafa bætt við upphæðina.

Kristján sagði Halldóri Tuma að hann væri nýkominn frá Haítí. Þar hefði hann hitt krakka sem ekki gætu farið í skóla. Aðeins um helmingur barna sem búa á Haítí hafa möguleika á að læra. Þessi peningur yrði notaður fyrir börn sem misstu allt sitt í jarðskjálftanum.

Árlega safna mörg hundruð börn á Íslandi peningum sem þau láta renna til Rauða krossins. Peningunum er varið til að aðstoða börn víðsvegar í heiminum sem eiga um sárt að binda. Á síðasta ári safnaðist hátt í milljón krónur til hjálpar börnum á Haítí og mun styrkur Halldórs Tuma bætast við þá upphæð og koma börnunum vel.