Stórmót í Lautinni

23. mar. 2011

Tuttugu þátttakendur skráðu sig til leiks á hraðskákmóti í Laut, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir á Akureyri, þar sem Rauði kross Íslands kemur m.a. að rekstrinum. Mótið var haldið kl. 17:30 í gær enda hafði Goðamaðurinn og prestur þeirra Húsvíkinga, Sighvatur Karlsson, boðað komu sína og efnilegra pilta um það leytið.

Lautargengið hafði fengið þá Smára Ólafsson frá Skákfélagi Akureyrar og Arnar Valgeirsson frá Skákfélagi Vinjar til samstarfs og úr varð stórskemmtilegt mót sem var öllum sem að því komu til háborinnar fyrirmyndar!

Hópur frá unglingaherdeild Skákfélags Akureyrar mætti og áhugamenn í Laut – sem ekki eru vanir klukkustressi – tóku alls ósmeykir þátt og stóðu sig frábærlega. Tefldar voru sex umferðir með sjö mínútna umhugsunartíma.

Smári stjórnaði mótinu af mikilli fagmennsku. Fagmennskan réð einnig ríkjum í eldhúsinu þar sem nýbakað – a la Helga og Fanney Dóra – var framborið í pásunni og orkuþörfinni svarað.

Skáksamband Íslands og Eymundsson á Akureyri sáu til þess að allir þátttakendur fengju vinninga.

Tveir allra efnilegustu Akureyringarnir, Mikael Jóhann Karlsson og Jón Kristinn Þorgeirsson börðust um sigurinn þar sem Mikael vann með fullu húsi. Jón var með fimm og Smári, Logi Jónsson og Hjörtur Snær Jónsson komu með fjóra. Skákstjórinn dæmdi sjálfan sig umsvifalaust í fimmta sæti og Logi tók þriðja sætið eftir stigaútreikning.

Nokkrir áhugamenn úr Lautinni ætla að mæta galvaskir á mót hjá Skákfélagi Akureyrar á morgun, fimmtudag, gera sitt besta og læra af meisturunum. Skákvikan endar svo með litlu „innanfélagsmóti” á föstudag.

Úrslit:
6 v.   Mikael Jóhann Karlsson
5.      Jón Kristinn Þorgeirsson
4.      Logi Jónsson
4.      Hjörtur Snær Jónsson
4.      Smári Ólafsson
3,5.   Páll Jónsson, Arnar Valgeirsson og Snorri Hallgrímsson
3 v.   Hlynur Viðarsson, Stefán Júlíusson og Valur Einarsson.
         Aðrir komu svo í humátt þar á eftir.